Hávellu fækkar á Lagarfljóti eftir virkjun

havellutalning.jpgHávellu hefur fækkað á Lagarfljóti. Vísbendingar eru um að breytingar á lífríki Lagarfljóts eftir að Jökulsá á Dal var veitt yfir í fljótið með Kárahnjúkavirkjun orsaki þetta. Aðrar skýringar kunna að koma til greina.

 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands vann fyrir Landsvirkjun.

Hávellan hefur í gegnum tíðina verið meðal algengari kafanda á Lagarfljóti og fjöldinn þar skipt hundruðum. Fylgst hefur verið með þeim undanfarin fimm ár og hefur þeim fækkað verulega síðan þá.

Í fyrrasumar sáust um 100 færri hávellur en árið 2009. Þá var talinn 291 fugl á formlegum athugunardögum á fljótinu. Í skýrslunni segir að þetta geti stafað af mildu veðurfari en við slíkar aðstæður sé gisin dreifing fugla þekkt.

Breytingar á lífríki Lagarfljóts með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar er talin ein hugsanlegra orsaka að hávellan yfirgefur fljótið.

„Skýringar á þessum breytingum liggja ekki fyrir en á tímabilinu var Kárahnjúkavirkjun gangsett og Lagarfossvirkjun var stækkuð. Báðar þessar virkjanir geta haft áhrif á nýtingu kafanda á Lagarfljóti, þó geta aðrar ástæður verið áhrifavaldar t.d. tíðarfar og ástand stofna.“

Í skýrslunni er bent á að hávellum hafi fjölgað við Ísland seinustu ár. Á sama tími dagi úr veiði á þeim sem sé „nokkuð öfugsnúin þróun.“

Náttúrustofan leggur til að áfram verði fylgst með hávellum á fljótinu. Vöktunin hafi skilað mikilvægum upplýsingum um tegundina.

Mynd: Árlegar sex talningar á hávellum á Lagarfljóti frá 2005-2010 (Óbirt vöktun NÍ 2005-2008. Halldór Walter Stefánsson 2010).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.