Skip to main content

Hávellu fækkar á Lagarfljóti eftir virkjun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. apr 2011 13:31Uppfært 08. jan 2016 19:22

havellutalning.jpgHávellu hefur fækkað á Lagarfljóti. Vísbendingar eru um að breytingar á lífríki Lagarfljóts eftir að Jökulsá á Dal var veitt yfir í fljótið með Kárahnjúkavirkjun orsaki þetta. Aðrar skýringar kunna að koma til greina.

 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands vann fyrir Landsvirkjun.

Hávellan hefur í gegnum tíðina verið meðal algengari kafanda á Lagarfljóti og fjöldinn þar skipt hundruðum. Fylgst hefur verið með þeim undanfarin fimm ár og hefur þeim fækkað verulega síðan þá.

Í fyrrasumar sáust um 100 færri hávellur en árið 2009. Þá var talinn 291 fugl á formlegum athugunardögum á fljótinu. Í skýrslunni segir að þetta geti stafað af mildu veðurfari en við slíkar aðstæður sé gisin dreifing fugla þekkt.

Breytingar á lífríki Lagarfljóts með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar er talin ein hugsanlegra orsaka að hávellan yfirgefur fljótið.

„Skýringar á þessum breytingum liggja ekki fyrir en á tímabilinu var Kárahnjúkavirkjun gangsett og Lagarfossvirkjun var stækkuð. Báðar þessar virkjanir geta haft áhrif á nýtingu kafanda á Lagarfljóti, þó geta aðrar ástæður verið áhrifavaldar t.d. tíðarfar og ástand stofna.“

Í skýrslunni er bent á að hávellum hafi fjölgað við Ísland seinustu ár. Á sama tími dagi úr veiði á þeim sem sé „nokkuð öfugsnúin þróun.“

Náttúrustofan leggur til að áfram verði fylgst með hávellum á fljótinu. Vöktunin hafi skilað mikilvægum upplýsingum um tegundina.

Mynd: Árlegar sex talningar á hávellum á Lagarfljóti frá 2005-2010 (Óbirt vöktun NÍ 2005-2008. Halldór Walter Stefánsson 2010).