Skip to main content

Hvergi kaldara í þéttbýli en á Egilsstöðum í janúarmánuði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2024 10:31Uppfært 07. feb 2024 10:32

Hiti mældist undir meðallagi á öllu landinu í liðnum janúarmánuði en að frátöldu hálendinu var hvergi kaldara þann mánuðinn en á Egilsstöðum.

Þetta staðfestir samantekt Veðurstofu Íslands vegna liðins mánaðar. Sé mið tekið af helstu mælistöðvum stofnunarinnar þann tíma var meðalhitinn undir frostmarki á öllum stöðum fyrir utan Höfn og Dalatanga. Meðalhiti á Höfn 0,1 stig en 1,0 stig á þeim síðarnefnda.

Það í töluverðu ósamræmi við meðalhita á Egilsstöðum sem mældist -2,5 eða þremur stigum lægri en á Dalatanganum. Sömuleiðis var neikvætt hitafrávik óvíða meira en á Egilsstöðum borið saman við meðalhitastig frá árinu 1991. Meðalhitastigið í janúar 2024 reyndist -1,5 stigum undir meðalhitastigi sama mánaðar síðustu 30 árin á Egilsstöðum. Þó var hitafrávikið enn meira á Eskifirði þar sem það mældist -1,9 stigum lægra en venjan hefur verið síðustu áratugi.