Hvetja innviðaráðherra á nýjan leik að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar
Alþingismennirnir Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Þorgrímur Sigmundsson, hafa á ný lagt fram áskorun til innviðaráðherra að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar svo að hönnun og útboð verksins fari fram á yfirstandandi kjörtímabili.
Þetta er fjórða tilraunin til að koma þessu brýna máli áfram innan þingsins en í öll skiptin hefur Njáll Trausti verið flutningsmaður tillögunnar. Hefur hún ekki hlotið brautargengi hingað til en innan innviðaráðuneytisins er ennþá unnið að nýrri samgönguáætlun til lengra tíma.
Hefur sitjandi ríkisstjórn margítrekað lýst miklum vilja til að stórefla innviði landsins á næstu árum og ekki mörg verkefnin í vegakerfinu sem eru jafn brýn og uppbygging Suðurfjarðavegar á milli Breiðdalsvíkur og Reyðarfjarðar eins og tiltekið er í þingályktunartillögunni.
„Með kraftmikilli uppbyggingu atvinnulífsins á undanförnum árum hefur umferð aukist á svæðinu, m.a. vegna skóla-, þjónustu- og atvinnusóknar innan sameinaðs sveitarfélags, ferðaþjónustu og síðast en ekki síst stórfelldra vöruflutninga til og frá höfnum svæðisins. [...] Ljóst er að Suðurfjarðavegur er mikill farartálmi með hættulegum vegarköflum og þremur einbreiðum brúm. [...]Vegarkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar þykir sérlega hættulegur með mörgum blindhæðum og kröppum beygjum og er auk þess að mestu leyti utan þjónustusvæðis farsímasambands. [...] Kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur hefur verið metinn áhættumesti vegarkafli landsins í áraraðir í skýrslum EuroRAP um öryggi vega. Þá er kaflinn metinn einnar stjörnu vegur af fimm mögulegum í öryggisskoðun EuroRAP, sem metur öryggi vegarins og öryggissvæðisins sem fylgir.“