Hvetja til útvíkkunar Loftbrúar fyrir börn og unglinga í æskulýðsstarfi
Átta þingmenn hafa lagt það til við innviðaráðherra að flugleggjum með svokallaðri Loftbrú verði fjölgað frá því sem nú er til að koma til móts við börn og ungmenni í hvers kyns æskulýðsstarfi.
Loftbrúin svokallaða hefur nú verið í boði fyrir velflesta íbúa landsins sem eru í hvað mestri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu um nokkurra ára skeið en hún felur í sér að hver og einn einstaklingur með lögheimili í dreifbýlinu getur flogið innanlands eina sex flugleggi árlega með 40% afslætti. Loftbrúin verið nýtt meira og meira þó farið sé að bera talsvert á óánægju fólks með að afsláttarhlutfallið standi alltaf í stað þó flugfargjöld hækki reglulega.
Jódís Skúladóttir úr flokki Vinstri grænna hefur ásamt sjö öðrum þingmönnum gert að tillögu til þingsályktunar að fjölga þeim leggjum sem í boði eru á afsláttarkjörum sérstaklega vegna æskulýðsstarfs barna og unglinga. Kostnaður íþrótta- og æskulýðssamtaka á landsbyggðinni, og oft á tíðum foreldra barna sem þátt taka, er langtum hærri en kostnaður slíkra aðila á suðvesturhorni landsins. Sérstakt málþing um þennan mikla aukakostnað landsbyggðarfólks fór einmitt fram á Egilsstöðum snemma í haust.
Jódís segir brýnt að þetta ójafnrétti verði fært til betri vegar sem fyrst.
„Stuðningur við þetta er almennt góður. Þetta er þingsályktun um að fela ráðherra að skoða þetta. Hvort að niðurstaðan verði slík leið eða hvort þörfum ungmennanna verði mætt með einhverjum öðrum hætti getur svo komið í ljós í kjölfarið á þeirri vinnu. Orð eru til alls fyrst og ég finn að þingmenn kjördæmisins alveg þvert á flokka hafa rætt þetta sem og samtök eins og Samband sveitarfélaga á Austurlandi auk annarra. Þetta er slæm staða og mikið ójafnrétti í þessu eins og þetta er nú. Þannig að ég hef þá von að við náum einhverri lendingu með einhvers konar stuðning fyrir ungmenni úti á landsbyggðinni.“
Ríkið niðurgreiðir átta flugferðir á ári fyrir íbúa landsins sem fjærst búa frá höfuðborginni. Það dugar skammt þeim börnum og unglingum sem taka þátt í ýmsu æskulýðs- og íþróttastarfi sem fram fer hingað og þangað um landið.