Skip to main content

Hvetur Fjarðabyggð til góðra verka á Breiðdalsvík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. apr 2022 12:46Uppfært 27. apr 2022 12:47

„Hugmyndin er að hvetja sveitarstjórn til að taka meiri þátt í uppbyggingu hér á staðnum öllum til hagsbóta,“ segir Elís Pétur Elísson, eigandi Goðaborgar á Breiðdalsvík.

Hann hefur sent sveitarfélaginu Fjarðabyggð skeyti þar sem hann óskar liðsinnis við að efla byggðina enn frekar og tiltekur þar meðal annars nauðsynlegar úrbætur á götum í bænum og þá sérstaklega á svonefndu hafnarsvæði. Allir helstu vinnustaðir bæjarsins standi við það svæði sem sé ómalbikað og þýði for og drullu fyrir alla sem um fara. Fyrirtækjaeigendur hafa sjálfir þurft að bera efni í götuna á eigin kostnað til að minnka óþrifnaðinn sem af kemur.

Elís segir að vissulega hafi Fjarðabyggð ýmislegt gott gert síðan Breiðdalshreppur sameinaðist því sveitarfélagi en betur megi ef duga skal. Almennri umhirðu hafi hnignað mikið, endalaus frestun uppbyggingar á sómasamlegu tjaldsvæði sé Breiðdalsvík ekki til framdráttar og margra ára húsnæðisskortur valdi mörgum atvinnurekendum vandamálum.

„Með tilliti til mikillar uppbyggingar á staðnum sem drifin hefur verið að mestu leyti af atvinnurekendum þykir mér sýnt að Fjarðabyggð megi gjarnan fara að taka meiri þátt í þeirri framkvæmdagleði. Það er mikill uppgangur á Breiðdalsvík og óskandi væri að Fjarðabyggð reyndi að liðka fyrir og ýta undir þann uppgang í stað frestunaráráttu og framkvæmdaleysi.“

Mynd: Breiðdalsvík trekkir til sín sívaxandi fjölda ferðafólks ár frá ári. Þörf er á að fegra bæinn og snyrta til hann verði aðlaðandi áfram.