Skip to main content

Hvít jól um allt Austurland

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. des 2023 09:25Uppfært 22. des 2023 10:11

Gangi spár Veðurstofu Íslands eftir næstu dægrin munu allir Austfirðingar njóta mjallhvítra jóla og það mun snjóa allvíða í fjórðungnum þegar kirkjubjöllurnar hringja klukkan 18 á aðfangadag.

Spár gera ráð fyrir nokkurri snjókomu víðast hvar á Austurlandi upp úr hádegi í dag sem bætist þá við þann snjó sem sest hefur á jörðu víðast hvar síðustu sólarhringa. Það mun jafnframt snjóa nokkuð snemma dags á Þorláksmessu á morgun en að öðru leyti tiltölulega bjart miðað við árstíma og hæglyndisveður allan daginn. Það mun svo byrja að snjóa á ný aðfararnótt aðfangadags og snjóa linnulítið um allan fjórðunginn langt fram á nótt. Veðurstofan gerir þó ráð fyrir töluverðum vindi, allt upp í sextán metra á sekúndu, á stöku stöðum við sjávarmál síðdegis þann dag. Það mun snjóa áfram lítillega á jóladag áður en það fer að stytta upp og draga mjög úr vindi. Frost verður kringum fimm til tíu stig á láglendi þessa næstu daga.

Sé litið lengra fram í tímann ber mörgum spám saman um að lítilsháttar frost verður á milli jóla og nýárs, almennt hægviðri flesta þá daga en tiltölulega þungskýjað. Gera má ráð fyrir að síðdegis á Gamlársdag og fram á nýja árið muni einnig snjóa á öllu Austurlandi ef dregnar eru saman spár stærri veðurstofa í Evrópu.