Hyggjast bjóða rafskútur í helstu kjörnum Austurlands

Nýir aðilar, Hopp Austurland, hafa tekið að sér að reka og halda úti rafskútum á Egilsstöðum og þeir sjá fyrir sér að koma fyrir slíkum tækjum í sem flestum kjörnum Austurlands gangi allt eftir á næstu árum.

Rafskútur er ekki nýmæli á Egilsstöðum enda verið í boði að leigja slíkt um tíma en nú er munur á því nýju aðilarnir eru að bjóða upp á glænýjar skútur og hafa aukið þjónustuna frá því sem áður var. Sturla Höskuldsson er einn þeirra sem að baki stendur og hann segir að nýjar rafskútur á Egilsstöðum sé bara byrjunin.

„Það má eiginlega segja að sá samningur sem við gerðum við Hopp þýði að við erum með einkaleyfi fyrir þessar skútur á Austurlandi og það ætlum við að nýta okkur. Við byrjuðum hér á Egilsstöðum fyrir tæpum tveimur vikum síðan og viðtökur hafa verið mjög góðar þann tíma. Við erum með 20 skútur núna en fljótlega bætast við 15 í viðbót. Svo erum við að leita leyfa til að fá að setja nokkrar þeirra á Seyðisfjörð og ef það gengur eftir gætum við hafið starfsemina þar upp úr miðjum júní. Við teljum líklegt að þær nýtist vel á Seyðisfirði þegar þessi mikli fjöldi skemmtiferðaskipa leggur að í bænum enda varla til betri kostur til að skoða bæjarlífið.“

Gangi allt vel þetta fyrsta sumarið halda menn svo ótrauðir áfram að koma rafskútum fyrir í öðrum bæjarkjörnum í fjórðungnum.

„Egilsstaður og Seyðisfjörður í sumar og svo er stefnan sett á að koma okkur fyrir í bæjum Fjarðabyggðar á næsta sumri. Byrjunin hér á Egilsstöðum lofar mjög góðu og nú bíðum við bara eftir grænu ljósi frá heimastjórn Seyðisfjarðar til að hefja starfsemi þar. Svo koma aðrir staðir inn hægt og rólega næsta sumarið.“

Aðstandendur Hopp Austurland með sveitarstjóra Múlaþings, Birni Ingimarssyni, þegar þeir hófu formlega starfsemi á Egilsstöðum fyrir skömmu. Þeir félagar ætla sér mun víðar á Austurlandi. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.