Skip to main content

Hyggjast opna sýningu á hlutum úr fornleifagreftrinum að Stöð í þorpinu sjálfu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2025 13:50Uppfært 05. jún 2025 13:54

Velflestum hindrunum hefur nú verið rutt úr vegi fyrir þeim hugmyndum hóps fólks á Stöðvarfirði að opna sýningu á hlutum úr hinum merka uppgreftri fornleifa að Stöð í þorpinu miðju.

Það er Félag áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði sem kynnt hefur þessa hugmynd fyrir þartilbærum aðilum en það er sami félagsskapur og á mestan heiðurinn af því að fornleifarannsóknir hófust að Stöð á sínum tíma og standa enn þann dag í dag. Þær rannsóknir, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, hafa vakið töluverða athygli meðal bæði leikinna sem lærðra.

Hugmyndin, að sögn Björgvins Vals Guðmundssonar eins forsprakka hópsins, er að fjarlægja bæði langeldstæði og svokallaða soðholu úr eldri skálanum að Stöð og koma fyrir á heppilegum stað í þorpinu miðju til sýnis fyrir gesti og gangandi í framtíðinni.

„Það er komið framkvæmdaleyfi fyrir þessu og framundan nú er að fornleifafræðingarnir þurfa að aðstoða okkur með því að taka eldstæðið sundur, mæla það upp og undirbúa flutning á hinn nýja stað. Rannsóknum á eldri skálanum er að fullu lokið og fallegt eldstæðið mun eftirleiðis bara fara undir mold að nýju ef ekki verður eitthvað að gert. Landeigendur þarna hafa ekki áhuga á varðveislu stæðisins. Svo langar okkur jafnframt að taka með soðholuna sem fannst við enda langeldsins en hún er afar merkileg enda fóðruð með hellusteinum.“

Þessu skal í kjölfarið komið fyrir í gegnsæjum kössum í þorpinu miðju við hlið styttunnar af landnámsmanninum Þórhaddi gamla sem stendur rétt fyrir ofan Sköpunarmiðstöðina og skammt frá því sem áður var verslun þorpsbúa.

„Hlutunum viljum við koma fallega fyrir og varðveita þannig á nýjum stað gestum til upplýsingar um þennan merka uppgröft. Við fengum um daginn styrk til þessa úr sjóði Sterks Stöðvarfjarðar upp á 900 þúsund krónur og ef það kemur í ljós að meira fjármagn þarf til þá förum við bara í að finna peninga annars staðar til að klára verkið.“

Langeldsstæðið sem um ræðir en grafið var niður á það snemma í júní fyrir tveimur árum síðan. Mokað verður yfir það og aðra hluti ef ekkert verður að gert. Mynd Bjarni F. Einarsson