Hyggjast reisa 6,7 MW vatnsaflsvirkjun í Gilsá í Eiðaþinghá
Tuttugasta og önnur stærsta vatnsaflsvirkjun landsins* mun á allra næstu árum rísa ofarlega í Gilsá í Eiðaþinghá í Múlaþingi ef óskir Orkusölunnar ná fram að ganga.
Fyrirtækið hefur farið þess á leit við Múlaþing að fá heimild til að vinna aðalskipulagsbreytingu sem heimilar fyrirtækinu að reisa 6,7 megawatta vatnsaflsvirkjun í Gilsá í Eiðaþinghá. Virkjunin sú verður með þeim stærri í landinu með 277 metra fallhæð þar sem hæst verður.
Svæðið er dag er skilgreint sem óbyggt landbúnaðarsvæði í núverandi aðalskipulagi og því þarf breytingar á því til að hefja framkvæmdir. Orkusalan vinnur nú að greinargerð um matsskyldu og hyggst senda Skipulagsstofnun til umsagnar og samþykkis á næstunni.
Sjá má á meðfylgjandi tölvuteikningu hvernig virkjunin mun líta út og hvar hún verður staðsett en ráð er fyrir gert að stöðvarhús virkjunnarinnar verði fyrir ofan Nykurfossa. Efri hluti þeirra fossa er ekki fiskgengur svo fyrirhuguð virkjun mun ekki hafa hamlandi áhrif á fiska.
Að sögn Magnúsar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Orkusölunnar, gæla menn þar við að gangi undirbúningur að óskum gætu framkvæmdir hafist strax á næsta ári og virkjunin farin að dreifa rafmagni strax árið 2026.
* Samkvæmt lista Netorku um aflmestu virkjanir landsins
Tölvuteikning af fyrirhugaðri virkjun. Fallhæð hennar verður 277 metrar og því um stórt mannvirki að ræða. Mynd Orkusalan