Hyggst höfða skaðabótamál gegn HSA vegna ólögmætrar uppsagnar og ærumeiðandi ummæla

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpgHannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, undirbýr skaðamótamál á hendur stofnuninni vegna ólögmætrar uppsagnar og ærumeiðandi. Hann var eini umsækjandinn um stöðu læknis hjá HSA í Fjarðabyggð en framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir ekki koma til greina að ráða Hannes.

 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hannes sendi Agl.is vegna fréttar og viðtals við Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóra HSA, í Sjónvarpsfréttum fyrir viku.
 
Hannes segir að við vinnslu fréttarinnar hafi ekki verið haft samband við hann til að fá hans hlið á málinu. Í viðtalinu hafi Einar Rafn sagt ýmislegt sem hann telji verulega ámælisvert. Hann geti ekki látið hjá líða að gera alvarlegar athugasemdir við þennan einhliða fréttaflutning af málinu þar sem hörð ummæli séu látin falla um hann.

"Ég vil sérstaklega vísa til ályktunar stjórnar Læknafélags Íslands frá 11. maí 2009 þar sem félagið lýsti yfir miklum áhyggjum yfir því að viðkvæm deilumál, eins og þetta, væru rekin í fjölmiðlum og minnti á þá grundvallarreglu stjórnarskrárinnar að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð með dómi. Að mati Læknafélagsins hefur þessi grundvallarregla verið brotin gagnvart mér og var í umræddri ályktun vísað til eftirprentana úr fréttatímum ljósvakamiðla frá því að málið kom upp," segir í yfirlýsingu Hannesar.

"Lögmenn mínir hafa átt bréfaskipti við Heilbrigðisstofnun Austurlands varðandi málið án þess að niðurstaða hafi fengist. Er nú í undirbúningi skaðabótamál á hendur Heilbrigðisstofnuninni á grundvelli ólögmætrar uppsagnar og ærumeiðandi ummæla forsvarsmanna stofnunarinnar í minn garð."

Hannes var sá eini sem sótti um lausa stöðu sem HSA auglýsti í Fjarðabyggð. Í viðtalinu sagði Einar Rafn að ekki kæmi til greina að ráða Hannes aftur. Hann hefði verið kallaður í atvinnuviðtal og þar hefði komið í ljós að ekkert hefði breyst.

Einar Rafn sagði Hannes hafa misnotað aðstöðu sína til að skrifa ranga reikninga, framkoma hans við samstarfsmenn og yfirmenn hefði verið óásættanleg og "læknisfræðilegum vinnubrögðum mjög ábótavant."

Einar Rafn sagði að Hannes hefði hvorki kært þá ákvörðun að vísa honum úr starfi né gert skulir sínar.

Starfið verður auglýst aftur. Þar til leysa aðrir læknar HSA af á svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.