Hyllir undir malbikun Sigtúnsins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. apr 2022 10:05 • Uppfært 13. apr 2022 10:20
Útlit er fyrir að í byrjun sumars verði gatan Sigtún á Vopnafirði loks lögð bundnu slitlagi. Það var kveikjan að framboðinu Betra Sigtúni í kosningunum 2014. Núverandi oddviti kveðst þó varast að fagna of snemma.
„Vonandi er þetta í höfn en ég þori ekki að fagna of snemma. En þetta eru löngu tímabærar gleðifréttir,“ segir Íris Grímsdóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps og núverandi leiðtogi Betra Sigtúns.
Hreppsráð samþykkti í síðustu viku tilboð frá Malbikun Norðurlands ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Þetta er þó ekki staðfest því endanleg ákvörðun verður í höndum sveitarstjórnar og hún þarf að gera viðauka í fjárhagsáætlun.
Sveitarstjórnin kemur saman 26. apríl. „Ég vona að ég fái að samþykkja þetta þá. Í kjölfarið getur jarðvegsvinna hafist ásamt því að finna út nákvæmlega fyrirtækið geti komið,“ segir Íris.
Hún telur líklegt að malbikað verði snemma í vor eða fyrri part sumars. Því er ekki ljóst að hún, eða framboðið, nái að fylgja verkinu alla leið en kosið verður 14. maí.
Framboðið Betra Sigtún var stofnað í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2014 sem listi ungs fólks á Vopnafirði sem vildi leggja samfélaginu lið. Það spratt upp úr gríni forsprakka listans um að ef þeir vildu fá götuna sem þeir bjuggu við, Sigtún, malbikaða yrðu þeir að fara sjálfir í framboð.
Framboðið fékk strax tvo fulltrúa kjörna, komst í oddaaðstöðu og hefur verið síðan í meirihluta. Illa hefur þó gengið að koma framkvæmdunum við Sigtún áfram en skipulagsvinna flýtti ekki fyrir. Þannig rifjar Íris upp að í kosningunum 2018 hafi malbikun Sigtúnsins ekki verið á stefnuskrá framboðsins, heldur Framsóknarflokksins.
Og nú, á sama tíma og malbikun götunnar virðist loks í höfn, er líftími framboðsins á enda því það býður ekki fram í vor. „Þetta er kannski ekki lokahnúturinn sem við vildum, það hefði verið betra að byrja á þessu,“ segir Íris.
„Það var ekki áhugi á að halda áfram. Aðstæður okkar sem vorum í forsvari hafa breyst og gáfum ekki kost á okkur, þar með datt dálítið botninn úr þessu. Fólk af listanum er samt í framboði annars staðar nú og kannski lifnum við aftur við síðar,“ segir hún að lokum.