Þáði ekki samningsbundnar launahækkanir

Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, hefur ekki þegið samningsbundnar launahækkanir frá árinu 2008. Það þýðir að laun hans eru lægri en gera hefði mátt ráð fyrir þegar samningur hans er lesinn.

baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpgAgl.is greindi í vikunni frá því að laun og launatengd gjöld bæjarstjórans væru um 1,9 milljónir króna og kostnaður við að skipta um bæjarstjóra því allt að 15 milljónir króna.

Tölurnar voru fengnar með að framreikna samning bæjarstjórans, í samráði við löggiltan endurskoðanda.

Inn í þann útreikning var ekki tekið til þess að bæjarstjórinn hefur afsalað sér samningsbundnum hækkunum frá haustinu 2008.

Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði er kostnaður við laun og launatengd gjöld bæjarstjórans tæp 1,5 milljón króna. Tölurnar úr bókhaldi sveitarfélagsins eru frá 1. júní og sundurliðast svona:
Dagvinna 644.179
Yfirvinna 334.490
Samtals laun 978.669
Akstur 89.100
Dagpeningar 95.400
Húsaleiga f. vinnuaðstöðu 55.792

Á yfirvinnu og dagvinnu reiknast 26% í laun og launatengd gjöld. Akstur er skilgreindur sem 900 km á mánuði eftir akstursgjaldi, sem í dag eru 99 kr/km. Þar er einnig ákvæði um dagpeninga.

Óvíst er hvað bæjarstjóraskiptin kosta sveitarfélagið nákvæmlega. Eiríkur á rétt á biðlaunum í hálft ár eftir að fráfarandi bæjarstjórn lætur af störfum. Sá réttur nær til launa, dagpeninga og húsaleigu en ekki aksturs. Þá á bæjarstjórinn inni frí. Hann er skuldbundinn til að vinna með nýrri bæjarstjórn í þrjá mánuði. Ekkert ákvæði nær til þess ef bæjarstjórinn ræður sig í sambærilegt starf sé hann ekki endurráðinn.

Kostnaðurinn við bæjarstjóraskiptin hefur því verið reiknaður frá 8,3 milljónum og upp í 14,4, allt eftir því hvaða reikniaðferðum er beitt og hversu lengi bæjarstjórinn vinnur fyrir nýja bæjarstjórn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.