Skip to main content

Í fylgd með Austfirðingum í Grindavík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. feb 2024 14:03Uppfært 05. feb 2024 14:07

Íbúar í Grindavík fengu í gær, daginn eftir þorrablót sitt, heimild til að fara og sækja eigur í hús sín. Heimildin slóst í för með Grindvíkingum sem eiga þó það sammerkt að eiga sterk tengsl við Austurland.


Það er Helgi Seljan, fyrrum blaðamaður Austurgluggans, sem skrifar greinina en hann fylgir eftir Theodór Ríkharðssyni sem er uppalinn á Djúpavogi og fjölskyldu hans að Blómsturvöllum 10. Með í för er Thorberg Einarsson, uppalinn Grindvíkingur sem býr á Vopnafirði.

Theodor og Thorberg eru skipsfélagar á Vésteini GK. Þeir komust í fréttirnar í haust þegar þeir héldu á fána með merki UMF Grindavíkur á landsleik Íslands í Slóvakíu og skilaboðum um að Grindvíkingar gefist ekki upp.

„Þetta er mikið verra en síðast. Þetta er bara ekki sami vegurinn. Sjáðu Salthúsið og íþróttahúsið, þetta er bara ónýtt,“ segir Thorberg á leiðinni inn í bæinn og við komuna þangað. Fleiri Austfirðingar verða á vegi þeirra, Páll Valur Björnsson fyrrverandi þingmaður er uppalinn Vopnfirðingur sem flutti ungur til Grindavíkur til að spila fótbolta og ílengdist þar.

Thorberg útskýrir að undir eðlilegum kringumstæðum væru líflegar þorskveiðar úti af Grindavík og fjöldi báta á ferð í höfninni. Þar er hins vegar allt tómt.

Thedor og kona hans, Vilborg Ólafs, hafa komið sér fyrir í íbúð í Njarðvík ásamt börnum sínum. Hún er hins vegar talsvert minni en húsið sem þau keyptu í Grindavík árið 2020. „Við látum þetta ganga. Þegar þau eldri koma úr fríi í framhaldsskólanum, sofum við bara í stofunni,“ segir Teddi.