Íbúafundi á Djúpavogi frestað fram á miðvikudag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. feb 2022 14:06 • Uppfært 21. feb 2022 14:07
„Við miðum nú við að halda fundinn á miðvikudaginn kemur klukkan 19,“ segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs, en íbúafundi þar í bæ sem halda átti í kvöld hefur verið frestað vegna veðurs.
Eiður segir við Austurfrétt að líklegt er samkvæmt veðurspá að heimamenn hefðu líklega náð á fundinn vandræðalaust að mestu enda er mesti veðurhamurinn mun síðar í kvöld. Vandamálið sé hins vegar þeir aðilar annars staðar frá sem fundinn ætla að sitja. Þeir gætu orðið veðurtepptir langt fram á morgun.
Á fundinum, sem ýmsir bæjarbúar hafa kallað, er hugmyndin að greina frá framtíðarhugmyndum Múlaþings á svæðinu, framkvæmdum og svara þeim spurningum sem heimafólk kann að hafa um rekstur sveitarfélagsins.