Íbúafundir um nýtt fyrirkomulag sorpflokkunar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. ágú 2023 15:36 • Uppfært 21. ágú 2023 15:36
Íbúafundir verða haldnir í dag og á morgun á Seyðisfirði, Egilsstöðum, Djúpavogi og Fljótsdal um nýtt sorpflokkunarkerfi Múlaþings og Fljótsdalshrepps.
Sveitarfélög landsins eru nú að bregðast við lagabreytingum sem samþykktar voru á Alþingi árið 2021 en tóku gildi um síðustu áramót.
Alþingi breytti þá lögum um um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Ákvæðin hafa tekið gildi eitt af öðru, svo sem um einnota plastvörur. Nú er komið að sveitarfélögunum.
Er þeim nú meðal annars skylt að safna gleri, málmum og textíl í grenndargáma og innheimta gjald sem næst raunkostnaði sorphirðu.
Íbúar Múlaþings hafa þegar fengið sendan bækling þar sem helstu breytingar eru kynntar. Um miðjan september bætist við ný tunna fyrir heimilissorp, en aðskilja þarf núna plast og pappír.
Á fundum verða fulltrúar frá sveitarfélögunum og Íslenska gámafélaginu sem fara yfir helstu breytingar og svara spurningum.
Fyrsti fundurinn verður í Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 17:00 í dag og annar í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 20:00 í kvöld. Á morgun er fundur í Végarði í Fljótsdal kl. 20:00 og Löngubúð á Djúpavogi klukkan 20:30.