Skip to main content

Íbúakannanir á Vopnafirði opnar til hádegis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. feb 2022 21:12Uppfært 10. feb 2022 21:14

Könnun um hug Vopnfirðinga til sameiningar við önnur sveitarfélög, sem gerð var á íbúafundi í kvöld, verður opin til hádegis á morgun, föstudag.


Á fundinum var kynnt staða vinnu RR ráðgjafar sem hreppsnefnd fékk til að greina valkosti til sameiningar fyrir sig í kjölfar breytinga á lögum um sveitarstjórnir, þar sem þrýst er á að sveitarfélög stækki til að taka að sér aukna þjónustu.

Skoðaðir voru sameiningar við Múlaþing, Fjarðabyggð, Langanesbyggð, nýtt sveitarfélag í Þingeyjasýslu og Austurland allt. Kostirnir byggðu á umræðum úr vinnustofum með kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins í sumar.

Um fimmtíu manns sóttu fundinn sem haldinn var í fjarfundi. Á meðan fundinum stóð var könnuð afstaða fundagesta til nokkurra mála sem snúa að sameiningu.

Spurt var hvað ætti að leggja áherslu á í sameiningarviðræðum, hvaða sameiningarkostur hugnaðist fólki helst og loks hvort Vopnafjarðarhreppur ætti yfir höfuð að sameinast.

Opið er fyrir athugasemdir og kosningar til hádegis á morgun, föstudag. Hægt er að nálgast þær á Menti.com með aðgangskóðanum 3695 1454.

Að því loknu verða niðurstöðurnar vinnunnar dregnar saman og þær lagðar fram fyrir sveitarfélagið. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á vegum hreppsins síðar meir ásamt niðurstöðum úr könnuninni og glærum.