Íbúar á Austurlandi bærilega sáttir við fyrirkomulag bráðaþjónustu
Núverandi fyrirkomulag bráðaþjónustu á Austurlandi er bærilegt eða betra að mati þátttakenda í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir heilbrigðisráðuneytið fyrr á árinu.
Könnun þessari ætlað að varpa ljósi á afstöðu íbúa á landsbyggðinni til bráðaþjónustu á hverju svæði fyrir sig en úrtakið var 2.260 manns alls á Íslandi öllu utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar.
Helstu niðurstöðurnar eru að rétt rúm 60% Austfirðinga eru fullkomlega, mjög eða frekar ánægðir með fyrirkomulag bráðaþjónustu í fjórðungnum. Tæp 17% segja hvorki né meðan rúm 20% er frekar eða mjög óánægð. Í heildina fær þjónustan á Austurlandi einkunnina 4,7 á skala frá einum upp í sjö. Aðeins íbúar Norðurlands og Vesturlands eru sáttari en það á landsvísu.
Gallup forvitnaðist jafnframt um hvað betur mætti fara. Aðspurðir um hvaða sérstöku þættir myndi auka öryggi varðandi bráðaþjónustu var tvennt sérstaklega ofarlega í huga Austfirðinga. Annars vegar bætt mönnum heilsugæslustöðva og bætt mönnum næst sjúkrahúss. Þar sérstaklega nefnt að bæta bráðaþjónustu á heilsugæslu og sjúkrahúsi vegna minniháttar veikinda eða slysa en það sem flestir töldu mikilvægast var að bæta fæðingarþjónustu. Komið hefur fyrir endrum og sinnum, nú síðast í september, að skerða þurfi fæðingarþjónustu í Neskaupstað vegna manneklu.