Skip to main content

Íbúar langeygir eftir úrbótum á tjaldsvæðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. maí 2022 18:49Uppfært 02. maí 2022 18:50

Íbúum á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík þykir hægt ganga í úrbótum á tjaldsvæðum byggðarlaganna. Fulltrúar flokkanna í meirihluta segja mikilvægt að vinna málið í sátt við íbúa meðan aðrir taka undir gagnrýni um að allt of hægt hafi gengið.


Tjaldsvæðamálin bar á góma í fyrirspurnatíma framboðsfunda á báðum stöðum í gær. Á Breiðdalsvík sagði spyrjandi að tilraunir til að koma upp tjaldsvæði þar hefðu engan árangur boðið.

Þeir Stöðfirðingar sem töluðu sögðust ekki vilja að Balinn, gróið svæði í miðjum bæjarins þar sem meðal annars eru leiktæki fyrir börn, yrði tekið undir tjaldsvæðið. Þar hafa hugmyndir um að nýta gamla knattspyrnuvöllinn undir tjaldsvæðið ekki gengið eftir enn. Frambjóðendur þvert á flokka sögðu ljóst að Balinn yrði ekki tekinn undir tjaldsvæðið heldur væri nýtt svæði á íþróttavellinum líklegasta lausnin, fyrir því virtist kominn meirihluti.

Íbúi sem býr í nágrenni núverandi tjaldsvæðis lýsti miklu ónæði af því, tjaldgestir kæmu seint að kvöldi jafnvel inn í hús hans til að borga fyrir tjaldsvæðið eða jafnvel ætlað þar í sturtu. Fjarðabyggð hefði ítrekað lofað úrbótum en ekki staðið við það.

Endalaust gauf

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, lýsti tjaldsvæðamálinu á Stöðvarfirði sem vandræðalegu. „Það hefur ekki farið í starfshóp heldur starfshópa – þetta er endalaust gauf. Við ræddum þetta mál hér fyrir fjórum árum og líka þar áður.

Það hafa verið ræddar margar mismunandi útfærslur en það koma sér einfaldlega ekki allir saman. Það þarf að taka ákvarðanir, við getum ekki beðið í 20 ár. Íbúakosning getur verið lausn eða taka ákvörðunina,“ sagði hann.

Anna Berg Samúelsdóttir, frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sagði það að íbúar leituðu á framboðsfundinum eftir upplýsingum um stöðu málsins sýna fram á samskiptaleysi. Ljóst væri að tjaldsvæðamálin væru í ólestri og þau yrðu að leysa.

Einar Már Sigurðsson frá Fjarðalistanum svaraði Breiðdælingum því til að ekki hefði gengið nógu vel með tjaldsvæðið. „Það er ekki gott að þetta taki tíma en við verðum að vanda okkur.“ Á Stöðvarfirði sagði Hjördís Helga Seljan að ósætti hefði tafið niðurstöðu en hún yrði að fara að koma. Stefán Þór Eysteinsson, oddviti listans, sagði íbúalýðræði eina af mögulegum leiðum til að fá hana fram.

Þarf að skoða víðtækt

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins, sagði síðasta sumar hafa sýnt að tjaldsvæðin á Eskifirði, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði væru of lítil. Með vaxandi húsbílaumferð ykjust kröfur og þörf á svæðum.

Því þyrfti að skoða tjaldsvæðamálin víðtækt í Fjarðabyggð, sem og rekstur þeirra en sumum er útvistað til einkaðila meðan sveitarfélagið rekur önnur. Málið yrði að taka inn á dagskrá bæjarstjórnar sem fyrst eftir kosningar en jafnframt hafa í huga að taka frá fé í uppbygginguna. Það að gestir tjaldsvæðis kæmu inn í búðarhús lýst hann sem „ánauð“ sem væri „ekki okkur sæmandi og skelfilegt að búa við.“

Hann kvaðst binda vonir við vísbendingar um stefnu í uppbyggingu bæði Balans og tjaldsvæðis kæmu út úr samantekt frá íbúaþingi sem haldið var á Stöðvarfirði í mars.

Stöðfirðingar komu einnig inn á gangstéttamál í bænum, brýnast væri að gera gangstétt meðfram aðalgötunni til að auka öryggi gangandi vegfarenda. „Við erum ekki að tala um að lagfæra gangstéttir heldur gera þær,“ sagði einn íbúa. Svör frambjóðenda voru á eina vegu um að gangstéttagerðin yrði að hljóta forgang.