Íbúar við Fjarðabyggðarhöllina kvarta undan skemmdum á bílum eftir framkvæmdir á svæðinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. sep 2025 14:25 • Uppfært 22. sep 2025 14:25
Íbúar í nágrenni Fjarðabyggðarhallarinnar hafa sent inn kvartanir vegna skemmda sem þeir telja hafa orðið á bílum sínum vegna viðgerðar á þaki hallarinnar. Ekki er fyllilega ljóst hvaða efni lenti á bílunum.
Fjarðabyggð bárust í síðustu viku nokkrar kvartanir vegna efnis sem virðist hafa fallið á bíla í nágrenni hallarinnar, einkum við fjölbýlishúsin við Melgerði. Best er að lýsa efninu sem glærum, fínum salla sem festist á allan bíllinn, hvort sem er króm, járn eða gler.
Austurfrétt hefur skoðað bíl sem á að hafa lent í efninu. Það sést illa en finnst fljótt þegar komið er við bílinn, hann er allur hrjúfur. Helst er að sjá efnið ef sest er inn í bílinn og horft út í gegnum framrúðuna. Það næst ekki af þótt rúðan sé bleytt og rúðuþurrkurnar settar í gang. Urg heyrist þegar þær fara yfir rúðuna.
Austurfrétt hefur rætt við bifreiðasmið sem staðfestir að hafa fengið tvo bíla frá íbúum í Melgerði sem borið hafi sömu einkenni. Annar þeirra er bíllinn sem Austurfrétt skoðaði. Bifreiðasmiðurinn segir að efnið eigi að nást af, spurningin sé aðeins hvernig. Til þess skipti mestu máli að vita um hvaða efni sé að ræða til að velja réttu meðferðina.
Plastefnið gult
Austurfrétt skoðaði aðstæður á vettvangi í síðustu viku, til að mynda á rúðum á neðstu hæð fjölbýlishúsanna. Ekki varð vart við efnið í þeim stikkprufum sem fjölmiðillinn skoðaði.
Austurfrétt skoðaði einnig aðstæður við Fjarðabyggðarhöllina sjálfa. Aðalframkvæmdin snýst um að húða plastkápu á þakið. Það efni er gult og myndar bólur. Það er auðsýnilegt á útveggjum hallarinnar og gangstéttinni. Eins hefur verktaki notað efni sem er dökkgrátt að lit. Hvorugt þessara efna virðist því hafa lent á bílunum.
Kvartanir íbúa virðast snúast einkum um atvik sem á að hafa orðið snemma dags laugardagsins 13. september síðastliðins. Þeir segja að vindur hafi þá staðið ofan úr fjalli og að íbúðablokkunum.
Ýtrasta öryggissvæði
Vinna við þakið hófst um miðjan ágúst. Samdægurs sendi Fjarðabyggð skilaboð á íbúa í næstu húsum við höllina um að til að vernda bílana þyrftu þeir að leggja annars staðar þar sem ryk frá framkvæmdinni gæti skemmt lakk bíla. Í tilkynningunni sagði að „óskað væri heimildar“ til að setja ábreiðu á bílana sem ekki væru færðir. Tekið var fram að önnur tilkynning yrði gefin út þegar óhætt væri að leggja bílunum á ný við húsin.
Henni fylgdi kort sem sýndi svæði í 50 metra radíus út frá höllinni. Talað var um ýtrustu varúðarráðstafanir. Einhverjir þeirra bíla sem nú hefur verið kvartað yfir stóðu utan við þetta svæði. Íbúar tóku kortinu sem skilaboðum um hvar óhætt væri að leggja bílum.
Í texta tilkynningarinnar var þó tilgreind öll fjölbýlishúsin í Melgerði auk stakra húsa í nágrenninu. Íbúar fengu einnig dreifimiða og girðingum var komið upp í götunni. Þær hindruðu en lokuðu ekki fyrir akstur. Þegar á leið framkvæmdina og ekkert hafði gerst, einkum þar sem unnið var fjallsmegin, töldu íbúar sér óhætt að nota bílastæðin.
Íbúar eru óánægðir með að verkið hafi ekki verið undirbúið betur, þeim kynnt fyrr hvaða ráðstafanir þeir þyrftu að gera eða fengið leiðbeiningar um hvar þeir gætu lagt bílum sínum þennan mánuð sem upphaflega stóð til að verkið tæki.
Verkinu á að ljúka í þessari viku
Verkið gekk vel í fyrstu en á því hægðist þegar haustlægðir tóku við með rigningu og roki. Áform um að ljúka verkinu í síðustu viku gengu ekki eftir en nú er allt útlit fyrir að það verði í þessari. Íbúar hafa einnig kvartað vegna óþæginda þegar unnið hefur verið á kvöldin og um helgar.
Ennfremur eru íbúar ósáttir við að hafa ekki fengið að vita um hvaða efni sé að ræða, meðal annars í ljósi þess að bæði grunn- og leikskóli eru skammt frá höllinni. Einu upplýsingarnar hafi verið að íslenskar eftirlitsstofnanir hafi verið búnar að taka þau út og lýst þau hættulaus.
Farið yfir hvert mál í samvinnu við tryggingafélög
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst kostar viðgerð á hverjum bíl, með leirbaði og mössun, 100.000-200.000 krónur. Það er þó sem fyrr segir með þeim fyrirvara að ekki liggur enn fyrir hvaða efni festist við bílana. Undanfarin ár hefur nokkrum sinnum gerst á Austfjörðum að efni hafi borist á bíla og skemmt lakk frá málningarvinnu í mikilli hæð.
Hjá Fjarðabyggð fengust þær upplýsingar að farið yrði yfir hvert mál fyrir sig og það metið í samráði við tryggingafélög. Hjá verktakanum Proseal fengust þær upplýsingar að málið hafi verið yfirfarið og unnið sé að lausn í samvinnu við Fjarðabyggð.