Íbúðalóðum fjölgað í nýju deiliskipulagi fyrir Stöðvarfjörð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. júl 2025 14:59 • Uppfært 17. júl 2025 14:59
Sex lóðir undir íbúðahús bætast við í nýju deiliskipulagi fyrir Stöðvarfjörð sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti í síðasta mánuði. Um leið er útivistar- og samfélagssvæðið Balinn skipulagt.
Skipulagssvæðið kallast Efri byggð og nær yfir tæplega 11 hektara svæði sem gróflega afmarkast af Einarsstaðaá ytri, Vambalæk og Fjarðarbraut.
Tilgangur skipulagsins er meðal annars að auka framboð á íbúðalóðum en þrjár slíkar eru lausar á svæðinu í dag. Þær eru orðnar níu með staðfestingu skipulagsins. Samkvæmt húsnæðisáætlun Fjarðabyggðar er gert ráð fyrir að uppsöfnuð íbúðaþörf á Stöðvarfirði fram til ársins 2030 sé 6-16 nýjar íbúðir.
Við Túngötu og Skólabraut, sem eru neðsti eða syðsti hluti svæðisins, er gert ráð fyrir þremur lóðum undir einbýlishús eða parhús. Næst Einarsstaðaá ytri verða til sex lausar lóðir við götuna Heiðmörk. Þrjár þeirra eru undir einbýlishús eða parhús og þrjár undir parhús eða raðhús.
Samkvæmt skilmálum skipulagsins geta 3-4 íbúðir verið í raðhúsi. Lágmarksstærð íbúða í rað- og parhúsum eru 50 fermetrar en 70 fermetrar í einbýlishúsum. Opið er hvort húsin séu á einni eða tveimur hæðum, með eða án bílskúrs.
Skipulagið skilgreinir einnig skilmála fyrir Balann, gróið svæði í miðju Stöðvarfjarðar sem er notað undir ýmsar samkomur, útivist og hreyfingu. Uppbygging Balans hefur verið eitt af áhersluatriðum byggðaþróunarverkefnisins Sterks Stöðvarfjarðar frá því það hófst árið 2022.
Samkvæmt skilmálum fyrir Balann er mögulegt að vera þar með matjurtagarða, strandblakvöll, leiksvæði eða annars konar útivist í almannaþágu. Ráð er gert fyrir skjólgróðri og göngustígum auk 10-20 bílastæðum.