Íbúðarhús í Neskaupstað illa farið eftir eldvoða í morgun

Mikið tjón varð í eldi sem kom upp í húsinu að Miðstræti 6, einnig þekkt sem Bár, á sjötta tímanum í morgun. Einn einstaklingur var heima þegar eldurinn komst út. Sá komst út af sjálfsdáðum.

Bár er tveggja hæða hús með kjallara. Búið var á neðri hæðinni en atvinnustarfsemi á þeirri efri. Húsráðandi var einn í húsinu. Sá varð var við eldinn og komst út sjálfur, að því er virðist ómeiddur.

Slökkviliðsmenn í Neskaupstað voru fyrstir á vettvang en barst fljótlega aðstoð frá kollegum sínum úr Fjarðabyggð.

„Það var mikill eldur á fyrstu hæðinni og þaðan fór töluverður reykur inn á efri hæðina. Við sendum slökkviliðsmenn inn á efri hæðina þegar nánast var búið að slökkva á fyrstu hæðinni. Hitamyndavélar sýndu þó mikinn hita í öllu gólfinu.

Við vorum enn að vinna í eldhreiðrum á neðri hæðinni og vissum að það gætu hlaupið upp úr þeim. Við vonuðumst til að það gerðist ekki en það gekk ekki eftir þannig að það blossaði upp eldur á efri hæðinni.

Okkur gekk samt greiðlega að slökkva hann. Þar kom 1-7 slökkvikerfi sérstaklega vel út og skilaði sér hraðar en vatnið sem við notuðum í byrjun,” segir Júlíus Albertsson, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Hann segir slökkvistarfið almennt hafa gengið vel og því lokið þegar svæðið var afhent lögreglu um klukkan tíu í morgun. Báðar hæðir hússins eru þó illa farnar af eldi, vatni og reyk. Eldsupptök eru ókunn en rannsókn þeirra verður í höndum lögreglu.

Húsið mun vera byggt árið 1913. Hluti þess hafði nýlega verið endurgerður. Í samantekt Veðurstofunnar um hús í Neskaupstað segir að á Fransmannatímanum hafi verið vandamál af drukknum útlendingum sem streymdu í húsið á kvöldin. Nafnið, Bár, stóð utan á því og gerðu aðkomumennirnir ekki greinarmun á því og hinu alþjóðlega orði „Bar“.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.