Skip to main content

Íbúðir í byggingu mæta ekki mannfjölgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2023 15:08Uppfært 30. nóv 2023 15:11

Þótt íbúðum í byggingu hafi fjölgað á Austurlandi dugir það ekki til við að halda í við áætlaða íbúaþörf þar sem mannfjölgun er umfram spá. Húsnæðisskortur hamlar uppbyggingu atvinnustarfsemi í fjórðungnum. Fasteignasali hvetur til að úrræðum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði hraðað þannig verktakar þurfi ekki að greiða bankavexti lengur en þörf er.


Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi í síðustu viku um húsnæðis- og atvinnumál. Elmar Erlendsson, sviðsstjóri lánasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fór þar yfir tölur úr nýrri talningu á íbúðum í byggingu. Slík samantekt er gerð árlega yfir landið allt tvisvar á ári, að vori og hausti.

Almennt er það svo að fólki fjölgar hraðar en íbúðum hérlendis og hefur það einnig verið staðan á Austurlandi. Staðan á svæðinu er þannig séð ekki betri eða verri en annars staðar.

Íbúðum í byggingu fjölgar um 40%


Íbúðum í byggingu á Austurlandi fjölgar úr 75 upp í 105 miðað við sama tíma í fyrra. Elmar sagði stöðuna ágætlega þar sem nokkuð jafnt flæði var á öllum byggingastigum. Þá eru 65 íbúðir til sölu á Austurlandi. Sá fjöldi hefur aukist eins og annars staðar síðustu misseri í takt við hækkandi vexti. Hins vegar er talan mun lægri en árið 2015 þegar 160 íbúðir voru á söluskrá.

En þrátt fyrir að íbúðum í byggingu hafi fjölgað um 40% milli ára heldur það ekki í við þörfina. Miðað við mannfjöldaþróun hefðu 127 íbúðir þurft að vera í byggingu. Miðað við mannfjöldaspána vantar 578 íbúðir á næstu fimm árum og 1.012 íbúðir á næstu tíu árum. Mannfjölgun hefur hins vegar verið umfram spár síðustu ár og þess vegna er komin nokkuð uppsöfnuð þörf á íbúðum, sem sést meðal annars í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga.

Fyrirtæki leigja gistiheimili


Í inngangsræðu sinni nefndu Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, ýmis áform um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi á næstunni. Tvennt standi henni aðallega í vegi. Annars vegar samgöngur, bæði úr landi og innanlands, en líka skortur á starfsfólki sem meðal annars skýrist af því að húsnæði vantar.

„Húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi og hamlað uppbyggingu. Það eru fjölmörg dæmi um að fyrirtæki fái ekki starfsfólk. Sum þurfa að finna húsnæði, taka jafnvel gistiheimili á leigu. Það er ekki boðlegt til lengri tíma og heldur aftur af ferðaþjónustunni,“ sagði Dagmar.

Úrræði ríkisins í húsnæðismálum


Elmar rakti að ýmis verkefni hefðu verið í gangi ríkisins til að reyna að efla húsnæðismarkaðinn. Í fyrra var undirritaður rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Þar er gert ráð fyrir byggingu 4.000 nýrra íbúða á ári næstu fimm ár. Af þeim á 30% að vera á hagstæðu verði og 5% félagslegar. Elmar kom einnig inn á hlutdeildarlán sem ætluð eru tekjulægri hópum. Þrjú slík lán hafa verið á samþykkt á Austurlandi til uppbyggingar 44 íbúða.

Austurland hefur fengið 2,2 milljarða í gegnum stofnframlög til leiguíbúða. 65 slíkar íbúðir eru á svæðinu, meðal annars íbúðir sem byggðar voru fyrir eldra fólk við Lagarás á Egilsstöðum. Opinberu leigufélögin, Bríet sem er í eigu ríkisins og Brák, sem sveitarfélögin eiga eru með 90 íbúðir eystra. Af 95 íbúðum Brákar eru 39 á svæðinu. Þá eru til staðar landsbyggðarlán upp á 80% stofnkostnaðar sem er ætlað að bregðast við á svæðum þar sem erfitt er að fá fjármögnun.

Dagmar sagði að meðal annars fyrir hvata ríkisins hefðu farið af stað íbúðaverkefni víða á Austurlandi síðustu ár, jafnvel á stöðum þar sem ekki hefði verið byggt í áratugi. Hins vegar sé staðan sú að nýbyggingar svari ekki eftirspurn. Eitt vandamálið sé að á ákveðnum svæðum sé söluandvirði lægra en byggingakostnaðurinn. Annars staðar sé það ekki málið en oft dragi vaxtaumhverfi kjarkinn úr verktökum.

Verktakar bíða á bankavöxtum meðan lánaskjöl leggja upp í langferð


Elín Káradóttir, fasteignasali, spurði að því hvort HMS hefði sveigjanleika í lánamati sínu og nefndi dæmi þar sem einstaklingar voru hársbreidd yfir þeim hámarkstekjum sem þarf til að standast kröfur hlutdeildarlánanna.

Hún fór einnig yfir afgreiðslur á lánum HMS, að þau komi ekki fyrr en fyrr en brunabótamat liggi fyrir. Það hafi mest tekið sex vikur í tilfelli sem hún tengist. En meðan beðið sé eftir því treysti verktakar á venjuleg bankalán með 17% vöxtum.

Þá nefndi hún kröfur HMS um að prenta út lán á löggiltum skjalapappír í skrifstofu sinni í Reykjavík. Við framkvæmdir eystra þurfi að koma þeim í flug eystra í næstu skref vinnunnar, síðan senda það aftur suður til vottunar hjá HMS og þá aftur austur til þinglýsingar hjá sýslumanni. Þetta geti tekið dýrmæta daga.

Elmar svaraði því til varðandi hlutdeildarlánin að engin afsláttur væri gefinn á lögum sem samin hefðu verið af Alþingi. Eitt verði þar yfir alla að ganga. Til skoðunar sé að reyna að afgreiða lán hraðar til að vinna gegn háum fjármagnskostnaði. Um undirritunina sagði HMS vinna að stafrænum lausnum. Reynt hefði verið að semja við aðra aðila um prentun en ákveðnar kröfur væru gerðar og komið hefðu upp dæmi þar sem þær voru ekki uppfylltar.