Skip to main content

Iðnaðurinn þarf að hafa sig allan við til að ná loðnukvótanum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. feb 2023 12:39Uppfært 23. feb 2023 14:44

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir aukið líf færast í loðnuvertíðina með væntanlegum ríflega 100.000 tonna veiðikvóta. Hafa þurfi hraðar hendur til að ná öllum kvótanum.


Hafrannsóknastofnun sendi í gær frá sér tilkynningu um að eftir helgi væri væntanleg veiðiráðgjöf upp á yfir 100.000 tonna viðbótarkvóta, sem er afrakstur könnunarleiðangurs stofnunarinnar undanfarna tíu daga. Í honum fannst töluvert af hrygningarloðnu úti fyrir Húnaflóa.

Mælingar á árgangi þessa árs síðustu ár gáfu til kynna að hann yrði stór. Í haust fannst ekki það magn sem vænst var og hafís hamlaði mælingum í janúar. Kvóti íslenskra skipa stendur nú í 180 þúsund tonnum en hve mikið bætist við kemur væntanlega ekki í ljós fyrr en eftir helgi. „Aukning á magni er mjög jákvæð enda loðnuvertíðin mikilvæg fyrir okkur og fleiri útgerðir,“ segir Gunnþór.


Alltaf bjartsýnn á veiðar


Í fyrra vantaði 170 þúsund tonn upp á að kvótinn veiddist allur. Hafa ber í huga að hann var risavaxinn, yfir 686 þúsund tonn. Gunnþór segir að átak verði að ná öllum kvótanum nú því langt sé liðið á vertíðina þegar viðbótin komi.

„Loðnuiðnaðurinn þarf að hafa sig allan við. Það er ekki gott að fá viðbótina svona seint en svona er það. Ég er alltaf bjartsýnn þótt við þurfum auðvitað að treysta á veðurguðina og göngumynstur loðnunnar.

„Við höfum ekki nýtt fiskimjölsverksmiðjunar að ráði heldur vinnslan verið mest í frystihúsunum. Nú má búast við að bræðslurnar fari að snúast og þá verður meira líf í hlutunum. Eins fer allt á span í stað þess að tempra veiðarnar með að láta skipin liggja í landi,“ segir Gunnþór en bætir við að veiðin á þessari vertíð hafi almennt gengið betur en á sama tíma fyrir ári.

Óvanalegt að veiða á Húnaflóa


Íslensku loðnuskipin eru nú flest að veiðum vestur af Vestmannaeyjum. Loðnan sem fannst í leiðangrinum er út af Húnaflóa, sem er óvanalegt svæði til loðnuveiða á þessum árstíma. „Við að við leiðangur rannsóknaskipsins er töluvert magn að koma að norðan og það er kannski óhefðbundið að veiða mikið þar á þessum tíma árs. Að veiða þar verður spennandi verkefni. Núna er eitt skip frá Ísfélagi Vestmannaeyja á leið á Húnaflóann.“

Það sem af er vertíðinni hefur mest af veiddri loðnu verið fryst til sölu í Austur-Evrópu. Hrognataka hefst ekki fyrr en í mars. Að sögn Gunnþórs hefur loðnan verið góð og vinnslan gengið vel. Verðmæti aflans skýrist þó ekki fyrr en síðar. Markaðir í Asíu og Japan taka aðeins við takmörkuðu magni og því ræðst verð þar af hve mikið er framleitt. Þá hefur stríðið í Úkraínu skapað erfiðleika á mörkuðum í Austur-Evrópu.