Illmögulegt að fara fram og til baka innan fimm tíma

Illmögulegt er fyrir Austfirðinga að ætla sér að fljúga til Reykjavíkur og til baka aftur innan fimm tíma en ná samt að sinna erindum. Öðru máli gildir hins vegar um fólk sem á erindi milli Akureyri og Reykjavíkur.

Sem kunnugt er stendur til að hefja gjaldtöku af bílastæðum við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík í dag. Stjórnendur Isavia hafa örlítið dregið í land alla síðustu daga og sagt að gjaldtakan hefjist á morgun eða hinn. Myndavélabúnaður við flugvöllinn á Egilsstöðum var settur upp í vetur.

Upphaflega var tilkynnt um gjaldtökuna í janúar en henni frestað eftir mótmæli. Gjaldtakan var aftur auglýst í lok maí. Þær breytingar urðu á að fyrstu fimm tímarnir í stæði eru fríir í stað 15 mínútna áður. Við það féll út tímagjald, 350 krónur á klukkustund heldur kostar fyrsti sólarhringurinn 1.750 krónur.

Eftir það kostar heill dagur 1.750 krónur, sem lækkar í 1.350 krónur eftir sjö daga veru á flugvellinum og síðan 1.200 krónur eftir 14 daga.

Er hægt að ferðast milli Egilsstaða og Reykjavíkur á fimm klukkutímum?


Austurfrétt hefur, í gegnum bókunarvél Icelandair, kannað möguleika á að komast fram og til baka annars vegar á milli Egilsstaða og Reykjavíkur, hins vegar milli Egilsstaða og Reykjavíkur innan þeirra fimm tíma sem hægt er að leggja frítt við Egilsstaðaflugvöll.

Það er tæknilega hægt. Mánudaga, fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga er flogið á milli staðanna þrisvar sinnum á dag. Vél fer frá Egilsstöðum klukkan 16:05 og lendir í Reykjavík 17:05. Síðasta véli dagsins lendir svo aftur á Egilsstöðum klukkan 19:15. Það er innan fimm tímanna, jafnvel miðað við leiðbeiningar Icelandair um að farþegar séu mættir á flugið 45 mínútum fyrir brottför, eða klukkan 15:20 frá Egilsstöðum.

Að sinna erindum, svo sem hitta sérfræðing í heilbrigðisþjónustu innan þessa tíma er hins vegar svo gott sem ómögulegt. Í fyrsta lagi er lent eftir að almennum dagvinnutíma lýkur, í öðru lagi hefur viðkomandi strangt til tekið aðeins 25 mínútur til að útrétta áður en hann á að vera aftur mættur á völlinn. Líklegt er að einstaklingur í slíkri för sé aðeins með handfarangur og gæti því mögulega teygt Reykjavíkurdvölina upp í 40 mínútur.

Annars er morgunflugið frá Egilsstöðum yfirleitt klukkan 9:05 en miðdegisflugið lendir þar klukkan 15:35. Á laugardögum og sunnudögum er fyrsta flug klukkutíma síðar á ferðinni frá Egilsstöðum. Því er varla annað í boði fyrir Austfirðinga, sem koma með einkabíl á flugvöllinn á Egilsstöðum, en að borga 1.750 krónurnar.

Reykvíkingur sem fer austur nær ekki að fara fram og til baka innan fimm tímanna, jafnvel þótt hann taki miðdegisvélina. Sá fer úr Reykjavík klukkan 14:35 og lendir ekki aftur þar fyrr en klukkan 20:45.

Akureyringar geta notað fimm tímana


Annað gildir um ferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þar hefur styttri flugtími, 45 mínútur í stað 50, áhrif og að fjórar ferðir eru í boði alla daga, nema laugardaga þegar farnar eru þrjár ferðir.

Norðlendingar geta tekið morgunflugið frá Akureyri klukkan 8:25 og verið lentir aftur klukkan 11:50. Það skilar þeim heim innan fimm tíma markanna. Þeir hafa 50 upp á að hlaupa, miðað við við að hafa mætt á völlinn eins og þeir eiga að gera klukkan 7:40.

Þeir þurfa að hafa hraðar hendur í borginni en hafa þó bæði meiri möguleika upp á opnunartíma að ræða en líka lengri tíma milli fluga. Þeir ættu að vera lentir klukkan 9:10 og vera komnir aftur á völlinn klukkan 10:05, tæpri klukkustund síðar. Þó skal haft í huga að með ferðatíma innan höfuðborgarsvæðisins er hæpið að koma miklu í verk á þessari tæpu klukkustund.

Norðlendingar eiga reyndar betri kost með að taka hádegisvélina sem fer að norðan klukkan 12:20 og ferðast heim með kaffivélinni, sem lendir klukkan 16:15. Þeir þyrftu að vera mættir klukkan 11:35 og næði því heim innan tíma markana. Þá hefðu þeir eina klukkustund og 40 mínútur til að reka sín erindi syðra.

Þriðja tækifæri dagsins fyrir Norðlendinga er að fara frá Akureyri klukkan 16:45 og vera komnir aftur 19:15. Sú ferð er reyndar svipuð og hjá Austfirðingum, sennilega búið að loka öllu og knappur tími milli fluga.

Nær ómögulegt er hins vegar fyrir fólk úr Reykjavík að ætla að leika þennan leik eftir. Eini möguleikinn væri að taka kaffivélina úr Reykjavík klukkan 15:30 og fara til baka með kvöldvélinni sem lendir þar 19:15. Sú ferð er innan tímamarka miðað við að mæting sé 14:45 á flugvöllinn. Með því fæst einn og hálfur tími milli fluga fyrir norðan seinni part dags.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.