Skip to main content

Isavia innanlandsflugvellir ehf. sektað fyrir ófullnægjandi merkingar um gjaldheimtu á bílastæðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jún 2025 15:10Uppfært 11. jún 2025 15:45

Neytendastofa hefur sektað Isavia innanlandsflugvelli ehf. fyrir óskýrar og misvísandi merkingar um gjaldheimtu á bílastæðum við Reykjavíkurflugvöll. Neytendastofa hyggst skoða nánar merkingar fyrirtækisins á Egilsstaðaflugvelli. Gjaldheimta á fleiri bílastæðum á Austurlandi er til skoðunar.


Neytendastofa birti í gær ákvarðanir gegn fjórum fyrirtækjum sem sektuð eru fyrir ófullnægjandi upplýsingar til viðskiptavina sem nýta bílastæðaþjónustu þeirra. Þrjú fyrirtækjanna eru sérhæfð gjaldheimtufyrirtæki en Isavia hið fjórða.

Neytendastofa fór í eftirlitsferð á Reykjavíkurflugvöll í apríl. Eftir hana var Isavia innanlandsflugvöllum tilkynnt um athugasemdir sem snéru að því að gjaldskrá innihéldi ekki upplýsingar um mismunandi fjárhæð þjónustugjalda eftir því hvaða greiðsluleið er notuð. Þá sé orðalag um sjálfvirkt greiðslukerfi villandi.

Isavia játar í svari sínu að merkingarnar megi bæta en hafnar því að þær brjóti lög og heitir því að úrbótum verði lokið í maí. Miðað við athugun Austurfréttar í dag virðist merkingarnar ekki enn uppfylla kröfu Neytendastofu. Isavia segir einnig að ítrekað sé vísað í vefsíður sem innihaldi nánari upplýsingar auk áminningar um að borga þegar ekið sé út af stæðinu.

Upplýsingar séu augljósar


Neytendastofa féllst ekki á skýringar Isavia og sektaði fyrirtækið um hálfa milljón króna. Þá er fyrirtækið skikkað til að gera úrbætur á merkingunum. Niðurstaða Neytendastofu var að Isavia hefði brotið lög með að tala um sjálfvirkt greiðslukerfi án þess að taka fram að notendur þyrftu að virkja það sjálfir.

Um þjónustugjaldið segir að þótt gerð sé grein fyrir því á merkingum með smáu letri sé það ekki fullnægjandi. Ekki sé gerð krafa um að slíkar upplýsingar séu birtar, heldur að þær séu auðsjáanlegar enda séu seljendur skyldugir til að upplýsa neytendur um endanlegt verð eða þætti sem hafi áhrif á það. Engin ástæða hafi verið fyrir Isavia innanlandsflugvelli að birta gjald fyrir innheimtuna ekki með sama hætti og aðra liði í verðskránni.

Skoða stöðuna á Egilsstaðaflugvelli


Þótt úttektin hafi verið gerð á Reykjavíkurflugvelli og refsað fyrir brot þar lýsir Neytendastofa því yfir að hún telji athugasemdirnar einnig eiga við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum, þar sem gjaldheimta hófst um leið og í Reykjavík eða í júní í fyrra. Út úr ákvörðuninni má einnig lesa að Neytendastofa sé að skoða merkingar Isavia ohf. við Keflavíkurflugvöll.

Matthildur Sveinsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Neytendastofu, segir að stofunni hafi borist fjöldi ábendinga um viðskiptahætti við bílastæði. Til að geta komið málum af stað hafi verið ákveðið að búta þau niður og byrja á ábendingum á höfuðborgarsvæðinu. Neytendastofa þurfi góð gögn til að rökstyðja ákvarðanir sínar og starfsfólk hennar hafi því farið af stað til að afla sannana.

„Þótt ekki sé tekin bein afstaða til merkinga við flugvellina á Egilsstöðum eða Akureyri þá teljum við að sömu sjónarmið eigi við alls staðar á landinu. Mögulega þurfum við að fara í ferðir til að fylgja eftir að fyrirmælum okkar hafi verið framfylgt eða til að taka stöðuna beint á öðrum landssvæðum,“ segir hún.

Ferðamannastaðir til athugunar


Hin fyrirtækin sem sektuð voru í gær voru Green Parking ehf., Easy Park og Parka lausnir ehf.. Í fyrstu fyrirspurn Neytendastofu voru fyrirtækin beðin um að senda yfirlit yfir þau bílastæði sem þau sæju um og í upptalningu Parka er að finna stæðin við Stuðlagil á Jökuldal. Úttekt Neytendastofu gagnvart Parka afmarkaðist við stæði í Reykjavík og á Selfossi.

Í tilfelli Parka voru gerðar athugasemdir um að upplýsingar um færslugjald eða vangreiðslugjald vantaði, verðskrá vantaði eða hún ekki nógu vel sundurliðuð þannig að ákveðnir liðir væru ranglega auglýstir sem endurgjaldslausir. Parka fékk eina milljón króna í sekt. „Það á að tilgreina alla gjaldliði þjónustunnar. Neytendur eiga rétt á að vita hverjum þeir borga og hve mikið,“ segir Matthildur.

Hún segir bílastæðamálunum ekki lokið af hálfu Neytendastofu. „Við höfum verið með þessi mál til meðferðar í marga mánuði en ákváðum að byrja á þessum málum til að klára þau og senda skilaboð. Við munum fylgja þeim eftir á öðrum svæðum. Við höfum fengið kvartanir á ferðamannastöðum þótt ég geti ekki staðfest á hvaða. Ég get líka staðfest að við höfum fleiri fyrirtæki til skoðunar.“

Fyrirtækin sem sektuð voru í gær hafa fjórar vikur til að áfrýja ákvörðunum. „Við erum að fara yfir ákvörðun Neytendastofu og eigum eftir að ákveða næstu skref í málinu,“ segir Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla í svari við fyrirspurn Austurfréttar. „En við höfum þó ákveðið að bregðast við athugasemdum í málinu með því að setja upp ný skilti með enn skýrari upplýsingum um fyrirkomulag gjaldtöku á svæðinu. Vinna við gerð þeirra er hafin.”

Neytendur eiga rétt á upplýsingum


Til viðbótar við fyrrnefnd bílastæði er gjaldheimta á bílastæðum við Hengifoss. Kvasir lausnir sjá um innheimtuna fyrir hönd Fljótsdalshrepps. Þá hefur Múlaþing samþykkt að hefja gjaldtöku við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.

Ákvarðanirnar frá í gær bera með sér að misjafnt er hvort eigandi bílastæða eða þjónustufyrirtæki eru sektuð. Isavia á sín stæði meðan hin þrjú eru mest í gjaldheimtu af stæðum í eigu annarra, gegn veittri þjónustu. „Það getur verið misjafnt hver beri ábyrgðina. En óháð því hver á eða tekur ákvörðun um gjaldheimtu þá eiga neytendur rétt á upplýsingum,“ ítrekar Matthildur.

Mynd: Unnar Erlingsson

Fréttin uppfærð með viðbrögðum Isavia.