Isavia tekur upp bílastæðagjald á Egilsstaðaflugvelli
Á næstunni mun Isavia koma upp nýju bílastæðakerfi með aðgangsstýringu á Egilsstaðaflugvelli en slíkt mun vera, eftir því sem Austurfrétt kemst næst, í fyrsta skipti sem bílastæðagjöld eru innheimt á Austurlandi. Innleiðing þess sögð bæta þjónustu og ferðaupplifun fólks.
Uppsetning kerfisins hefst á næstu dögum en eftir að það er komið upp þurfa allir sem þangað eiga erindi á bíl í lengri tíma en fimmtán mínútur að greiða 350 krónur fyrir hverja klukkustund umfram það eða 1.750 krónur sólarhringinn fyrstu vikuna. Gjaldið lækkar í 1.350 hvern dag næstu vikuna þar á eftir.
Nýja kerfið er með sama sniði og gerist við Keflavíkurflugvöll og jafnframt skal setja upp sams konar kerfi á flugvellinum á Akureyri á næstunni líka. Gjöldin verða hin sömu en kerfið mun lesa bílnúmer allra sem á völlinn fara. Hægt verður að greiða í sérstöku appi, Autoplay sem svo er kallað og einnig gegnum vef Parka. Sé ekki greitt með þeim leiðum næstu tvo daga eftir brottför er sendur reikningur í heimabanka bíleigandans.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð hefur þegar formlega mótmælt þessum gjörningi Isavia. Ólíðandi sé að grafið sé með þessum hætti undan ávinningi fólks af Loftbrúnni og auka þannig álögur og skatt á íbúa landsbyggðarinnar. Slík gjaldtaka komi verst niður á viðkvæmum hópum sem þurfi aðstæðna vegna að sækja sér ýmsa nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðið.