Íslandspóstur lokar fjórum pósthúsum í Fjarðabyggð í sumar
Íslandspóstur ohf. hefur ákveðið að loka fjórum pósthúsum í Fjarðabyggð í byrjun júní. Við breytingarnar fækkar um tæplega eitt stöðugildi á svæðinu. Póstbox verða sett upp í staðinn.Staðirnir sem um ræðir eru Neskaupstaður, þar sem Íslandspóstur hefur rekið sjálfstætt pósthús en á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík hefur starfsemin verið í samstarfi við aðra aðila. Þetta þýðir að aðeins eitt pósthús verður eftir í Fjarðabyggð en það er á Reyðarfirði. Að auki eru eftir pósthús á Egilsstöðum, Djúpavogi og Vopnafirði.
Samkvæmt tilkynningu sem Íslandspóstur sendi frá sér í gær verða sendingar á þessum stöðum framvegis afgreiddar af bílstjórum og í póstboxum. Þau eru þegar komin upp á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað en verða fljótlega sett upp á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði.
Þar er haft eftir Kjartani Flosasyni, forstöðumanni pósthúsa, að dregið hafi úr eftirspurn eftir pósthúsum og þess vegna þróaðar annars konar lausnir. Ánægðustu viðskiptavinir Íslandspósts séu þeir sem noti póstboxin, sem séu opin allan sólarhringinn árið um kring. Þau sé nú einnig hægt að nota til sendinga.
Þar segir að rætt hafi verið við starfsfólk pósthúsanna sem lokað verður. Í svörum við fyrirspurnum Austurfréttar kemur fram að eitt stöðugildi leggist af í Fjarðabyggð. Öðru starfsfólki hafi verið boðið annars konar starf eða flutningur. Í svörum eftir nánari fyrirspurnir kemur fram að hluti starfsfólks færi sig frá Norðfirði yfir til Reyðarfjarðar.
Í tilkynningunni er því fólki sem nú lætur af störfum þakkað fyrir vel unnin störf og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Í Neskaupstað er pósthúsið í eigu Íslandspósts. Í svörunum kemur fram að það verði selt. Hin eru ekki í eigu Póstsins.
Alls lokar Íslandspóstur tíu pósthúsum í sumar. Að auki verður lokað á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, í Grundarfirði og Búðardal.