Íslendingar gætu þurft að borga milljarða árlega náist ekki að draga saman losun

Íslenska ríkið mun þurfa að greiða allt að tíu milljarða króna á ári eftir árið 2030 náist ekki markið um að draga úr losun lofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra segir sofandahátt gagnvart landnotkun og skógrækt hafa orðið til þess að Ísland þurfti á þessu ári að kaupa losunarheimildir.

Þetta kom fram í máli ráðherrans, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldið var í Fljótsdal í síðustu viku.

Samkvæmt Parísarsáttmálanum ber Íslendingum að draga saman losun sína um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. „Ef við gerum það ekki þá þarf að kaupa losunarheimildir árlega fyrir 1-10 milljarða króna á ári. Ef við náum markmiði okkar þá getum við selt heimildir,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum.

Hvernig er losun Íslands reiknuð?


Íslenska loftslagsbókhaldið skiptist í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er það viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Undir það falla losun frá fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi eins og siglingum, flugi og stóriðnaði. Innan þess er ákveðinn kvóti og geta fyrirtæki sem eru undir sínu hámarki selt heimildir til þeirra sem fara fram úr og þurfa að kaupa.

Annar þáttur er landnotkun og skógrækt. Guðlaugur Þór sagði að á öðru tímabili þeirrar áætlunar hefði Íslendingar misst sjónar á boltanum eftir að hafa náð markmiði sínu á fyrsta tímabili. Það hafi orðið til þess að ríkið keypti losunarheimildir fyrir 350 milljónir á þessu ári. Um var að ræða eingreiðslu til að uppfylla skuldbindingar Kyoto-sáttmálans frá árinu 1997.

Þriðji þátturinn er bein ábyrgð eða losun Íslands. Það er hún sem Guðlaugur Þór vísar til þegar hann talar um að minnka þurfi losunina til að komast hjá sektargreiðslunum. Hann benti á að 12% samdráttur væri talsverður árangur, einkum þegar haft er í huga að erlendir ferðamenn voru aðeins 300.000 árið 2005 en eru sennilega í kringum tvær milljónir nú.

Hvers vegna styrkir ríkið bílaleigur?


Stærsti hluti þessar losunar, þriðjungur, er frá bílaumferð. Guðlaugur Þór útskýrði að þess vegna væri bílaleigur styrktar til að kaupa rafbíla. Fáar þjóðir í heiminum séu með jafn hátt hlutfall bílaleigubíla í flotanum. Þá séu þessir bílar uppistaðan í þeim fjölda bíla sem séu seldir notaðir. Hefði fyrr verið snúið frá ívilnunum til rafbílakaupa bílaleiga í stað bensín- eða dísilbíla væru hugsanlega fleiri rafbílar komnir í almenna umferð í dag.

Á fundinum var Guðlaugur Þór spurður út í innviði fyrir rafbíla því nægar hleðslustöðvar verða að vera til staðar til að hægt sé að fara á þeim um landið. Guðlaugur Þór sagði að stöðvarnar hefðu í fyrstu verið styrktar í gegnum Orkusjóð en því hefði verið hægt því markaðurinn væri að taka við sér. Annað atriði sé að sveitarfélög hugi að því að hafa land undir hleðslustöðvar nærri spennistöðvum til að draga úr tengikostnaði. Í þriðja lagi sé æskilegt að gististaðir séu með hleðslustöðvar því ferðafólk hlaði á meðan það sofi.

Aðrir losunarþættir


Fiskiskipin eru næst stærsti losunaraðilinn hérlendis. Losunin hefur dregist töluvert saman með nýrri og sparneytnari skipum. Þar á eftir er landbúnaðarframleiðsla með 22%. Sú losun hefur helst dregist saman vegna fækkunar sauðfjárbænda sem Guðlaugur Þór benti á að veri tvíbent þróun. Fjórði þátturinn er losun gasa frá kælibúnaði. Þar hefur gengið vel hjá einkaaðilum en verr hjá hinu opinbera. Útblástur er einnig frá jarðvarmavirkjunum en Guðlaugur sagði það atriði sem hægt væri að vinna á.

En það eru líka atriði sem hafa farið í ranga átt. Fiskimjölsverksmiðjurnar juku losun sína um 485% þar sem þær gátu ekki fengið það skerðanlega rafmagn sem þær vildu kaupa. Þá jókst losun frá húshitun um 230%. Rótin er ástandið á Vestfjörðum þar sem næst stærsta rafstöðin gengur fyrir díselolíu.

Boðar fjórða áfanga rammaáætlunar


Guðlaugur Þór sagði ekkert hafa verið gert síðustu 15 ár í grænni orku. Þar væri hann ekki bara að tala um raforku, sem bjargað hefði verið með smávirkjunum, heldur líka hitaveitur. Samkvæmt nýrri skýrslu er 2/3 þeirra í vandræðum með orkuöflun. Guðlaugur Þór rifjaði upp að það hefði kostað átök þegar Ísland var hitaveituvætt upp úr miðri síðustu öld.

„Þessi árangur kostaði sitt en hugsum við eins og Ingólfur Arnarson hafi komið og skellt hitaveitunni í samband,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann benti á að Íslendingar gætu þar flutt út þekkingu sína því mörg lönd eigi hitaveitu gjafa sem þeir hafi ekki nýtt enn. Íslendingar hefðu til að mynda unnið að hitaveituvæðingu borgar í Kína sem hefði sparað meiri útblástur en allt Ísland.

Á fundinum sagði Guðlaugur Þór að hann myndi leggja fram fjórða áfanga rammaáætlunar um virkjanakosti á Alþingi í vor. Þar væri gert ráð fyrir 525 MW í vatnsaflsvirkjunum, 100 MW í jarðvarmavirkjunum og 810 MW frá vindorkuverum. Hann gaf til kynna að innan tíðar yrðu tíðindi af lagaramma vindorku hérlendis. „Við þurfum græna orku. Við björgum ekki heiminum með henni heldur okkur.“

Guðlaugur Þór sagði augljósan ávinning af orkuskiptum sem væri hægt að skilgreina sem þjóðaröryggismál þar sem Ísland yrði síður háð innflutningi orkugjafa. Hins vegar yrði að huga að jafnvægi, 89% erlendra ferðamanna kæmu hingað til að sjá ósnortna náttúru sem væri hverfandi í Evrópu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.