Skip to main content

Íslendingum fækkar en útlendingum fjölgar á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. sep 2023 11:37Uppfært 13. sep 2023 11:38

Alls fjölgaði í hópi starfandi fólks á Austurlandi frá júní 2022 til júní 2023 um alls 171 einstakling. Þrátt fyrir heildarfjölgun yfir línuna fækkaði Íslendingum.

Þetta kemur fram í nýjustu vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands sem birt var fyrir stuttu og tekur til annars árshluta yfirstandandi árs

Sé fjöldi vinnandi handa á Austurlandi í júní á yfirstandandi ári borin saman við sama mánuð fyrir ári síðan kemur í ljós að nokkur fjöldi Íslendinga hefur flutt úr fjórðungnum á þessum tólf mánuðum. Í júní 2022 töldust 5.086 Íslendingar í hópi starfandi manna en voru í liðnum júní 5.057 talsins. Það fækkun um 29 Íslendinga. Í júní 2022 voru alls 1.396 erlendir ríkisborgarar starfandi í fjórðungnum. Ári síðar hafði þeim fjölgað í 1.596. Það er fjölgun um slétta tvö hundruð einstaklinga.

Íslenskum konum fækkaði aðeins meira en körlum á þessu tímabili. Innlendu kvenfólki fækkaði um 27 talsins meðan innlendum karlmönnum fækkaði um 13 alls.

Sé litið enn aftar til fortíðar, tíu ár aftur til júnímánaðar árið 2013, hefur erlendu vinnuafli fjölgað á Austurlandi í heildina um 163 prósent. Á þeim tíma hefur starfandi Íslendingum fækkað um rúm fimm prósent.

Víða á Austurlandi vinna útlendingar hin ýmsu störf og þeim fer fjölgandi sem setjast hér að til lengri tíma. Mynd Austurland.is