Skip to main content

Íslenskt timbur geti annað innlendri þörf eftir 25 ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2025 16:24Uppfært 14. ágú 2025 16:26

Skógrækt er að fullorðnast sem atvinnugrein með tilurð timburvinnslu. Stöðugt styttist í að íslenskir skógar geti fullnægt innlendri eftirspurn. Sérfræðingur hjá Landi og skógi segir að áfram þurfi að bæta hvernig hugsað sé um nýtingu skógarins frá byrjun.


Árlega flytja Íslendingar inn um 60 þúsund rúmmetra af timbri. Til að standa undir því þarf um 1000 hektara af vel hirtum skógi en spár gera ráð fyrir að það markmið náist eftir um 25 ár.

Reiknað er með að eftir 5-10 ár fáist um 50.000 rúmmetrar af við úr íslenskum skógum. Mest verði það grisjunarviður en 20-30% viðarins henti til frekari vinnslu. Eftir 25 ár er vonast til að hlutfallið verði jafnt og þá fáist 100.000 rúmmetrar af efni.

Hugsað betur um lokaafurðina


Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri gagna, miðlunar og nýsköpunar hjá Landi og skógi segir að íslenskur viður standist fyllilega gæðasamanburð við þann erlenda en Íslendingar þurfi að sækja sér alþjóðlegar timburvottanir. Fyrsta FSC vottunin hérlendis fór fram í Haukadal í júní. Eins sé timburvinnsla hérlendis mest sérvinnsla eftir óskum viðskiptavina en hún þurfi að færast í staðlaðar stærðir.

Í erindi sem hann hélt á Umhverfisráðstefnu Austurlands í sumar, fór Gunnlaugur yfir hvernig íslensk skógrækt væri að þróast í átt til nýtingar. Fyrst hefði verið horft á að gróðursetja en eftir aldamót hefði virðiskeðja byrjað að byggjast upp. „Við erum að færast úr stjórnun og skipulagi skógarins. Oft hefur vantað tengingu við lokaafurðina og við þurfum að skoða hvernig við bætum það,“ sagði hann þar.

Vantar meira fjármagn í grisjun


Kolefnisskógar áttu sinn þátt í vexti þótt þeir hafi aldrei náð þeim árangri sem að var stefnt. Eftir efnahagshrunið 2008 voru gróðursetningar skornar niður sem einfaldlega leiðir til þess að Íslendinga mun skorta timbur síðar. Í dag eru gróðursettar um 7 milljónir plantna árlega en áætlanir gerðu ráð fyrir 12 milljónum.

Gunnlaugur sagði að samningar við járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga árið 2012 og síðar PCC á Bakka hefðu markað ákveðin tímamót. Verksmiðjurnar hafa keypt kurl úr grisjun sem aftur skili tekjum í það verk. Gallinn sé að nær enginn annar peningur fáist í grisjun, en grisja þarf skógana til að þeir þroskist sem best.

Gunnlaugur nefndi dæmi um að nú, 13 árum eftir grisjun á Stálpastöðum í Skorradal, væri hægt að höggva 4.000 rúmmetra af skógi og af því væri hægt að nýta 80% sem fyrsta flokks timbur. Úr því væri trúlega hægt að fá 1.600 rúmmetra af smíðavið en í eitt einbýlishús þarf 150-200 rúmmetra. Hann sagði að skoða þyrfti fleiri hugmyndir fyrir grisjunarvið. Lífkol og perlur eru meðal þess sem tilraunir standa yfir með á Austurlandi.