Skip to main content

Íþróttir: Tap fyrir sterku liði Aftureldingar í fyrsta leik

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. sep 2023 09:30Uppfært 25. sep 2023 10:42

Þróttur Neskaupstað tapaði fyrir sterku liði Aftureldingar í fyrsta leik sínum í úrvalsdeild kvenna í blaki í vetur. Ungt Þróttarliðið spilaði vel í þriðju hrinu. KFA tapaði fyrir KFG í undanúrslitum bikarkeppni neðri deilda.


Afturelding vann Þrótt nokkuð örugglega 0-3 en liðin spiluðu í Neskaupstað. Afturelding hafði yfirburði í fyrstu tveimur hrinunum og vann þær 12-25 og 11-25.

Þróttur náði hins vegar frumkvæðinu í þriðju hrinu og hélt því þar til staðan var 18-17. Þá tók Afturelding rosalegan kafla og skoraði sjö stig í röð. Í stöðunni 18-24 voru úrslitin því mikið til ráðin en Þrótti tókst að bæta við tveimur stigum áður en Mosfellsbæjarliðið skoraði sigurstigið.

Luca Martin Carrasco, nýr leikmaður Þróttar, var stigahæst með sex stig en þær Amelía Rún Jónsdóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir skoruðu fjögur hvor.

Þróttur sendir einnig U-20 ára lið til keppni í fyrstu deild í vetur. Í gær komu lið frá KA í heimsókn. Þróttur vann karlaleikinn örugglega 3-0 eða 25-14, 25-20 og 25-16 í hrinum.

Þróttur vann einnig kvennaleikinn 3-0 en það segir ekki alla söguna því hrinurnar unnust með minnsta mögulega mun eða 25-23, 25-23 og 26-24.

KFA tapaði 0-1 fyrir Knattspyrnufélagi Garðabæjar í undanúrslitum Fotbolti.net bikarsins en leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni. Gestirnir skoruðu sigurmarkið strax á þriðju mínútu leiksins.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða