Ítreka nauðsyn þess að hefja útboð á Fjarðarheiðargöngum

Heimastjórn Seyðisfjarðar ítrekar enn og aftur nauðsyn þess að farið verði sem allra fyrst í útboð vegna Fjarðarheiðarganga og að framkvæmdir við þau göngin hefjist eigi síðar en á næsta ári.

Heimastjórnin fundaði í morgun í fyrsta skipti eftir að bærinn lokaðist af í fjóra daga vegna ófærðar yfir heiðina yfir páskahátíðina. Þó ekki sé óalgengt að vegurinn yfir heiðina lokist tímabundið þegar veður eru válynd að vetrarlagi, enda í rúmlega sex hundruð metra hæð, var lokunin yfir helgina ein sú lengsta sem verið hefur um langt skeið.

Slíkri einangrun fylgir vitaskuld mikið óöryggi vegna snjóflóðahættu, sem var nokkur yfir sama tímabil, en ekki síður mikil óvissa ef alvarleg veikindi eða slys hefðu komið upp. Þá ótalinn skortur á ýmsum nauðsynjum eins og mat og lyfjum sem mjög var farið að bera á auk þess sem ekki mátti miklu muna að olíulaust yrði í fjarvarmaveitu bæjarins. Allt þetta á tímabili þar sem mun fleiri voru í bænum vegna páskanna en venjan er dags daglega.

Bókun heimastjórnar var samþykkt samhljóða en hún er svohljóðandi:

„Heimastjórn Seyðisfjarðar beinir því til sveitarstjórnar að farið verði þess á leit við innviða-, fjármála- og efnahagsráðherra að nú þegar verði gefin heimild til útboðs Fjarðarheiðarganga þannig að það fari fram samhliða því að verkefnastofa um gjaldtöku klári sína vinnu við tekjumódel fyrir jarðgöng á Íslandi. Með því móti væri hægt að ganga til samninga við framkvæmdaaðila um leið og tekjumódel jarðganga á Íslandi verður samþykkt á Alþingi. Mikilvægt er að framkvæmdir við gerð Fjarðarheiðarganga hefjist á árinu 2025.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.