Skip to main content

Ítrekar kröfur um undirgöng við hesthúsahverfið á Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. okt 2023 13:53Uppfært 02. okt 2023 13:53

Flestar reiðleiðir í boði til og frá hesthúsahverfinu á Reyðafirði kalla á að fara þurfi yfir umferðarþungan Norðfjarðarveg sem skapar hættu fyrir bæði hestafólkið og aðra vegfarendur. Leysa má úr því með byggingu undirganga en rætt hefur verið um slíkt í árafjöld.

Það er formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar, Þuríður Lilly Sigurðardóttir, sem kom kröfu um þetta á framfæri fyrir skömmu en hesthúsahverfið, sameiginlegt fyrir Reyð- og Eskfirðinga, stendur æði nærri Norðfjarðarveg, sem margir kalla Fagradalsbraut, og þverar flestar helstu reiðleiðir í grenndinni.

„Ég og fleiri hafa talsverðar áhyggjur af öryggismálum þarna því það er töluverð gróska í hestamennskunni og núna nokkuð um börn og unglinga sem leggja stund á slíkt. Ég lagði til að umhverfis- og skipulagsnefnd hæfu á ný viðræður við Vegagerðina um aðgerðir og þá byggingu undirganga svo öryggi fólks sé best tryggt.“

Málið er ekki alveg nýtt af nálinni því nokkur ár eru síðan þetta kom til tals og þá áttu sér líka viðræður við Vegagerðina. Síðan hefur ekkert gerst og segir Þuríður það miður. Betra sé að koma í veg fyrir slysin en gera eitthvað eftir að þau hafi átt sér stað.

Þuríður, sem sjálf er formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, hyggst á næstunni óska fundar með Vegagerðinni til að ítreka þessa kröfu og vonast til að málið komist þar á rekspöl.

Hesthúsahverfið hér neðst á miðri mynd en til að komast í flesta lengri útreiðartúra þarf yfir Norðfjarðarveg. Slíkt ekki alltaf einfalt eða óhætt þegar umferð er mikil. Mynd Map.is