Jakob gefur kost á sér í 1. – 3. sæti
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. feb 2022 09:10 • Uppfært 09. feb 2022 09:15
Jakob Sigurðsson, bóndi, bifreiðastjóri og sveitarstjórnarfulltrúi í Njarðvík, gefur kost á sér í 1. – 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi sem haldið verður 12. mars til að velja á lista flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor.
Jakob er fæddur 2. ágúst 1959. Hann er bifvélvirki með meistarabréf frá Iðnskólanum í Reykjavík þar sem hann vann að loknu námi í eitt ár hjá Bílaverkstæði Sambandsins.
Hann er giftur Margréti Ingibjörg Benediktsdóttir Hjarðar frá Hjarðargrund á Jökuldal. Þau eiga saman fjögur börn og reka sauðfjárbú ásamt nautaeldi í Njarðvík. Þau halda einnig úti ferðaþjónustu auk þess að hafa haldið úti áætlunarferðum milli Borgarfjarðar og Egilsstaða frá árinu 1996.
Jakob hefur mikla reynslu af sveitastjórnarmálum þar sem hann varð fyrst aðalmaður í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps árið 1998 og oddviti frá 2006. Hann kom að undirbúningi sameiningar Borgarfjarðar inn í Múlaþing og var kjörinn í sveitarstjórn, ásamt því að vera aðalmaður í umhverfis- og framkvæmdanefnd og varamaður í fleiri nefnum. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fjölda ára og situr í stjórn kjördæmisráði flokksins í Norðausturkjördæmi.
„Ég mun gera mitt besta til að Múlaþing verði ákjósanlegur valkostur að búa í. Ég mun styðja við alla uppbyggingu hvar sem er í Múlaþingi.
Ég legg mikla áherslu á samgöngur hvort sem er á láði lofti eða legi. Það er mikilvægt að samgöngur séu í lagi ekki bara fyrir íbúa Múlaþings heldur einnig fyrir ferðamenn sem vilja heimsækja okkur svo og fyrir atvinnulífið, koma vörum að og frá,“ segir Jakob í tilkynningu.
„Heimastjórnirnar sem við í sameiningarferlinu lögðum mikla áherslu á hafa sannað sig, það hefur sýnt sig að í svona víðfeðmu sveitarfélagi er þetta mikilvægt. Múlaþing hefur upp á að bjóða mörg tækifæri fyrir þá sem búa og vilja búa í Múlaþingi hver kjarni í sveitarfélaginu hefur sinn sjarma.“