Skip to main content

Jákvæðar fréttir af loðnu frá togurum úti fyrir Norðurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. nóv 2023 12:51Uppfært 24. nóv 2023 12:57

Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segist enn vongóður um að loðna finnist í veiðanlegu magni fyrir næsta ár. Jákvæðar fréttir hafi borist af loðnu á ferðinni við norðan og vestanvert landið. Talsvert er enn til af hrognum frá síðustu vertíð því markaðir eru þyngri en áður.


Þetta var meðal þess sem fram kom í gær í kynningu Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar á uppgjöri Síldarvinnslunnar fyrir þriðja ársfjórðung. Þar fór Gunnþór bæði yfir reksturinn á árinu til þessa en einnig væntingar til næstu mánaða.

Ekki fannst loðna í nægjanlegu magni við rannsóknir í haust þannig að hægt væri að gefa strax út upphafskvóta. Fleiri tilraunir verða gerðar til leitar og bindur Gunnþór vonir við þær. „Við sem höfum verið lengi í þessu höfum oft staðið í þessum sporum um þetta leyti árs og oftar en ekki þá höfum við fengið loðnukvóta.

Ég er enn bjartsýnn. Það liggur fyrir að það urðu einhver mistök í mælingu á ungloðnu síðastliðið haust. Við höfum líka töluvert jákvæðar fréttir af loðnu frá togurum á veiðislóð úti fyrir Norðurlandi og Vesturlandi.“

Gunnþór sagði loðnuafurðir frá síðustu vertíð nær allar seldar en sömu sögu er ekki að segja um hronin. „Það var mikið framleitt af loðnuhrognum á síðustu vertíð og við höfum tekið þær birgðir niður í verðmætum í uppgjörinu. Það liggur fyrir að sala á loðnuhrognum er lítil,“ sagði Gunnþór og skýrði það með erfiðari aðstæður á mörkuðum í Asíu. Samdrátta sé í neyslu í Kína og Kóreu og hærri fjármögnunarkostnaður í Kína og Japan valdi því að viðskiptavinir dragi að sækja vöruna.

Góð síldarvertíð


Á þriðja ársfjórðungi veiddu skip Síldarvinnslunnar um 42.000 tonn af uppsjávarafurðum, um 20.000 tonn af makríl, nokkru minna en í fyrra. Síldaraflinn jókst að sama skapi, var um 16.000 tonn af norsk-íslenskri síld og rúmlega 5.000 tonn af síld. Brædd voru um 38.000 tonn af uppsjávarafurðum í Neskaupstað en tæplega 28.500 tonn unnin til manneldis.

Gunnþór sagði sölu makrílafurða hafa gengið vel og allar birgðir selda. Hærra hlutfall sé brætt því verð á mjöli og lýsi sé hærra en á manneldismörkuðum. Færeyingar hafi til að mynda brætt allan sinn makríl en Síldarvinnslan hafi ekki viljað fara þá leið.

Þá hafi síldarvertíðin gengið vel og bjartara sé yfir stofninum eftir niðursveiflu fyrir nokkrum árum. Stærstur hluti íslensku síldarinnar fór til manneldisvinnslu.

Furðulegt hve mikið kolmunnakvótinn eykst


Um veiðar næsta árs lýsti Gunnþór vonbrigðum með að ekki hefðu náðst samningar um deilistofna í Norður-Atlantshafi. Fyrir liggi ráðgjöf um að minnka veiðar á makríl um 6% og norsk-íslenskri síld um 24%. Gunnþór sagði það áhyggjuefni því um væri að ræða einn öflugasta síldarstofn heims.

Á sama tíma eru veiðiheimildir í kolmunna hækkaðar um 13%. Gunnþór sagði það furðulegt því veitt hefði verið úr stofninum langt umfram ráðgjöf vísindamanna árum saman. „Það vekur upp spurningar um vísindin.“

Hagnaður Síldarvinnslunnar á þriðja ársfjórðungi var 40,1 milljón dollara eða um 5,5 milljarðar króna. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins er 62,8 milljónir dollara eða 8,7 milljarðar króna.