Skip to main content

Jákvætt fyrir efnahagslífið að fjölga konum í atvinnurekstri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jún 2024 14:25Uppfært 19. jún 2024 14:29

Um 40 konur víða af landinu komu austur til að taka þátt í landsbyggðarráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem Austurlandsdeild þess hélt á Hallormsstað í maí.


„FKA var stofnað til að fjölga konum sem reka fyrirtæki því það er gott fyrir efnahagslífið,“ sagði Jónína Bjartmarz, framkvæmdastjóri. Hún var meðal frummælenda á ráðstefnunni með yfirskriftinni „vörumerkið ég“.

Jónína er í dag formaður Atvinnurekenda Auðs sem fór í árlega vorferð sína á ráðstefnuna og kom víða við á Austurlandi. Auður er deild innan FKA sérstaklega ætluð konum sem reka fyrirtæki eða hyggjast stofna þau. Um 40 konur tóku þátt í ferðinni en Jónína sagði í ræðu sinni að innanlandsflugið væri veruleg hindrun fyrir uppbyggingu, einkum í ferðaþjónustu á Austurlandi.

Jónína er hvað þekktust fyrir að hafa setið á Alþingi árin 2000-7, þar af verið umhverfisráðherra 2006-7. Hún féll af þingi í kosningunum 2007. Hún sagði það hafa verið „helvíti skítt“ en hún tók sig til og stofnaði til viðskipta í Kína. Hún hefur meðal annars verið formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins og eigandi ferðaskrifstofunnar Iceland Euope Travel.

„Það var gott að vera laus allra mála, að upplifa ævintýri, bæta við sig þekkingu og víkka lífssýninga í annarri heimsálfu þegar hrunið skall á,“ sagði hún.

Heiða Ingimarsdóttir, formaður FKA Austurland og upplýsingafulltrúi Múlaþings, opnaði ráðstefnuna á að fara yfir sögu sína, frá því að vera einstæð móðir með tvö börn sem langaði að mennta sig yfir í að klára meistaragráðu frá erlendum háskóla. „Það er allt hægt þótt leiðin sé ekki sú sem maður ímyndaði sér,“ sagði hún.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, kom í kjölfar þeirra. Hún sagði félagsskapur kvenna alltaf hafa skipt sig miklu máli og hjálpað henni til að komast inn í samfélagið þegar hún flutti austur fyrir 16 árum.