Skip to main content

Jarðhæð Eskifjarðarskóla lokað vegna myglu og raka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. apr 2023 07:52Uppfært 20. apr 2023 07:53

Jarðhæð Eskifjarðarskóla var í gær lokað vegna myglu og raka. Þetta var gert eftir að skýrsla EFLU um myglu í skólanum barst sveitarfélaginu. Fleiri rýmum var lokað.


Gripið var til aðgerða strax eftir að sveitarfélaginu barst skýrslan í gærmorgunn. Í janúar var tilteknum rýmum lokað eftir að þar hafði verið staðfest mygla.

Samkvæmt tilkynningu Fjarðabyggðar frá í gærkvöldi eru mestu raka- og mygluskemmdirnar á jarðhæð skólans. Þar hefur verið tónskóli, bókasafn og elsta deild leikskóla.

Þeirri hæð hefur verið lokað. Leikskóladeildin verður á efri hæðum skólans þar til ný lausn er fundin. Bókasafnið og tónskólinn verða lokuð á morgun, föstudag. Nemendur grunnskólans eru þá hvort sem er í fríi vegna starfsdags.

Skemmdir á öðrum hæðum skólans eru minni. Þar hafa verið stúkuð af ákveðin rými sem liggja undir skemmdum. Að öðru leyti verða þær nýttar í skólastarf út þetta skólaár.

Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar verður haldið áfram að fara yfir skýrsluna og ákveða frekari viðbrögð við niðurstöðunum á morgun. Í tilkynningunni segir að stefnt sé að því að nánari upplýsingar liggi fyrir eftir helgi og tillögur um framhaldið verði þá kynntar fyrir starfsfólki, foreldrum og íbúum.