Skip to main content

Skotárás: Játar að hafa ógnað lögreglu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2022 18:01Uppfært 25. feb 2022 18:04

Karlmaður, sem ákærður er fyrir skotárás á Egilsstöðum í lok ágúst, hefur játað ákærulið sem snýr að ógn við lögreglu. Því hafði hann áður neitað. Hann ítrekaði iðrun sína og afsökun til þeirra sem ættu um sárt að binda vegna athafna hans.


Þetta kom fram í lokaskýrslu ákærða fyrir dómi. Aðalmeðferð málsins hófst í gær og var framhaldið í morgun. Þá báru vitni sjónarvottar að atvikunum. Þar kristallaðist sem fyrr smábæjarsamfélagið, meðal vitna voru fréttamaður RÚV og bæjarfulltrúi, en báðir búa í nágrenninu.

Héldu smellina stafa af leikjum unglinga

Vitnin staðfestu í grófum dráttum það sem fram kom í frásögn annarra vitna í gær, að lögregla hefði kallað á ákærða fyrir bæði skothríð rúmlega 22:20 og aftur áður en hann var skotinn um klukkan ellefu að leggja frá sér vopnið. Eitt vitnanna tók fram að í seinna skiptið hefði lögregla virst biðla fallega til mannsins en ekki í geðshræringu eins og í fyrra skiptið. Annað vitni sagði lögreglumanninn virst mjög stressaðan í seinna skiptið. Minnisstæðast væri hopp lögreglunnar við skotið.

Vitni sögðust flest hafa séð atburðina óskýrt eða takmarkað, bæði vegna fjarlægðar og myrkurs. Þau áttu því erfitt með að staðsetja ákærða eða lögregluþjóna í atburðunum. Þau gátu ekki greint úr hvaða byssu hefði verið skotið fyrst.

Nágrannar sögðust fyrst hafa heyrt smelli og talið væri að um væri að ræða unglinga að leik, annað hvort með hjólabretti eða hvellettubyssur. Eitt vitni sagðist hafa ætlað út til að skamma unglingana, annar að hann hefði farið út á götuna og ætlað að tala við ókunnuga manninn sem stóð í hlaðinu og hinu megin en hætt við. Vitnið taldi sér ekki hafa staðið ógn af viðkomandi.

Vinur ákærða sagði frá því að ákærði hefði hringt í sig tvisvar meðan árásinni stóð. Vinurinn kvaðst muna símtalið illa en hann hefði reynt að tala um fyrir ákærða sem hefði verið kominn á ystu nöf og í raun verið að kveðja. Hann hefði hljómað rólegur og fullur eftirsjár.

Streita, áfengi og kvíðalyf

Lyfjafræðingur gerði grein fyrir áfengismagni og leifum af lyfjum í blóði ákærða eftir atburðina. Á eftir honum vitnuðu þrír geðlæknar sem mátu ákærða. Þeir staðfestu að hann væri sakhæfur. Þeir töldu álag í einkalífi og vinnu auk daglegrar áfengisneyslu dagana á undan og umrætt kvöld vera helstu orsakir atburðanna.

Sérstaklega var spurt út í áhrif kvíðalyfs sem viðkomandi var nýlega farinn að taka, en árásargirni er meðal þekktra en sjaldgæfra aukaverkana þess. Sérfræðingarnir fjórir báru allir að notendum ætti að vera ráðið frá áfengisdrykkju samhliða notkun slíkra lyfja, auk þess sem það stæði í fylgiseðli. Það væri meðal annars gert því áfengisneysla drægi úr áhrifum lyfsins en það gæti magnað áhrif áfengis. Annar þeirra tveggja geðlækna sem stóðu að yfirmatsgerð sagði ekki hægt að útiloka lyfið sem þriðja orsakavald atburðanna, það hefði þá aukið áhrif áfengisins. Líklega væru þessir þrír fyrrnefndu þættir samverkandi.

Ákærði sagði heimilislækni, sem ávísaði lyfinu, ekki hafa rætt við hann um áhrif áfengis á það. Hann kvaðst hafa lagt í vana sinn að lesa lyfseðla en mundi ekki hvort hann hefði lesið umræddan seðil staf fyrir staf.

Síðasta vitnið sem kom fyrir dóm var sjálfstætt starfandi hljóðmaður sem greindi tímasetningu skota út frá upptöku úr myndavél lögreglubifreiðar. Aðspurður af sækjandi staðfesti hljóðmaðurinn að alls hefði verið skotið 14 skotum, þar af 11 úr byssu lögreglu en þriggja úr byssu sakbornings. Óyggjandi væru að fyrstu tvö skotin væru á sama tíma.

Skipti um skoðun eftir að hafa hlustað á framburð lögreglu

Ákærði kom síðastur fyrir dóminn áður en gert var matarhlé, en að því loknu tekur við lokamálflutningur. Hann var spurður af dómara hvort hann vildi breyta í einhverju afstöðu sinni eða bæta við eftir að hafa hlýtt á framburð vitna.

Ákærði sagðist þá gangast við ákærulið númer fimm, sem snýr að því að hafa ógnað lögreglumanni í vari bakvið lögreglubifreið með að beina að honum haglabyssu. „Ég hafnaði því í byrjun því mér fannst atburðalýsingin ekki vera eins og það sem gerðist, að því leyti að sú ógn sem ég bý til er ekki til að ógna lögreglumanninum, hún var til að fá hann til að skjóta mig en ég ætlaði ekki að saka hann. Það hefur ýmislegt komið fram að svo var. Ég gengst því því. Ég vona að refsingin taki mið af hve ætlun mín var en ekki hvað talið var,“ sagði ákærði. Dómari spurði hvort hann játaði ákæruliðinn skýlaust og svaraði ákærði því játandi.

Ítrekaði fyrirgefningu

Ákærði kvaðst einnig vilja ítreka iðrun sína. „Það gerðust skelfilegir hlutir sem legið hafa þungt á mér. Ég sé í þessu réttarhaldi að margir eiga um sárt að binda og þetta hefur farið illa í marga. Mér fannst skelfilegt að heyra að barn lögregluþjóns hafi lenti í aðkasti vegna þessa. Ég vona að þeir sem þetta hefur legið þungt á leiti sér hjálpar og fái hana.

Að neyða manneskju til að horfast í augu við mig og skjóta mig, ég hef hugsað mikið um það. Ég óskaði við skýrslutöku eftir að fá að hitta lögregluþjóninn og biða hann afsökunar. Ég fékk engin viðbrögð.

Mér er sama hvað þú æfir og æfir, þú getur aldrei æft að þurfa að skjóta aðra manneskju. Ég veit sem veiðimaður að sumir hafa guggnað á að fella dýr. Þótt þeir beri sig vel þá hlýtur þetta að hvíla þungt á mönnum.

Ég mun taka við þeirri refsingu sem mér verður dæmd. Ég þarf að fara í gegnum þennan kafla og byrja upp á nýtt. Þetta er einangrað tilvik, ég tel mig ekki slæman mann þótt þetta hafi komið upp á og vona að ég fái tækifæri til að stíga upp úr því sem fyrst. Ég veit að ég á mikið verk fyrir höndum við að komast í gegnum þetta en ég ætla að gera það. Framtíðin er að geta komið aftur austur. Ég vona að ég geti með afsökun minni og hegðun sýnt fram á að ekki stafi hætta af mér. Þetta er mín von.“

Í hádeginu fór dómari ásamt sækjanda, verjanda og réttargæslumanni á vettvang í Dalseli. Það gerðu þau jafnframt í gær en veður var vont þá og útsýni ekki nógu gott. „Nú er komið bjart veður svo við ættum að sjá betur núna,“ sagði dómari áður en honum varð litið út um gluggann.