Skip to main content

Jens Garðar nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins: Innra starfið er forgangsatriði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2025 11:25Uppfært 03. mar 2025 11:27

Jens Garðar Helgason, nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segist þakklátur fyrir þann stuðning sem honum er sýndur með kjörinu. Hann hefur trú á nýjum formanni enda þekkjast þau vel af vettvangi atvinnulífsins.


„Mér líður mjög vel í dag. Ég er auðmjúkur eftir að hafa fengið þennan stuðning og verið falið þetta verkefni,“ segir Jens Garðar, sem býr á Eskifirði og er fyrrum oddviti flokksins í Fjarðabyggð. Hann var valinn oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í október og kjörinn á þing í nóvember.

Jens Garðar hlaut 928 atkvæði eða 53,2% gildra atkvæða en kosið var á landsfundi flokksins um helgina. Í framboði á móti honum var Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður úr Reykjavík, sem fékk 43,4%. Hann segir þau hafa háð „drengilega og skemmtilega, stutta en snarpa baráttu.“

Þekkir Guðrúnu vel


Flokkurinn kaus sér nýja forustusveit því Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður. Má segja að það hafi verið með minnsta mögulega mun, hún hlaut 50,1% en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir 49,1%. Samkvæmt reglum flokksins þarf formaður að fá að minnsta kosti 50% í fyrstu og tókst Guðrúnu það með tveimur atkvæðum.

„Mér líst vel á Guðrúnu. Við höfum þekkst í 11 ár og starfað áður saman á vettvangi atvinnulífsins,“ segir Jens sem tók við af Guðrúnu sem varaformaður Samtaka atvinnulífsins, þegar hún varð formaður Samtaka iðnaðarins. „Ég held að hún eigi eftir að verða mjög öflugur málsvari Sjálfstæðisflokksins, talsmaður einstaklingsframtaksins og sjálfstæðisstefnunnar.“

Jöfn kosning klýfur ekki flokkinn


Hann óttast ekki að flokkurinn sé klofinn þrátt fyrir jöfn úrslit því formannsframbjóðendurnir hafi háð heiðarlega kosningabaráttu. „Ég held að úrslitin endurspegli tvo gríðarlega sterka frambjóðendur. Maður fann að salurinn skiptist nánast hnífjafnt. Þær háðu drengilega og flotta baráttu þar sem þær fóru um allt land og hittu félagsmenn.“

Guðrún tekur við af Bjarna Benediktssyni, sem hefur verið formaður flokksins frá árinu 2009. Jens telur ekki að veruleg breyting verði á stefnu flokksins þrátt fyrir nýja forustusveit. „Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki í neina stefnubreytingu. En við höfum talað um að horfa inn á við með að einbeita okkur að innra starfinu. Þar eru sveitarstjórnarmálin efst á blaði því það verður kosið þar eftir ár.“

Sérstakir og hvikulir tímar í utanríkismálum


Fráfarandi varaformaður er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrum utanríkisráðherra. Hún talaði um utanríkismál í ræðu sinni á fundinum, hvernig mikilvægt væri að verja sjálfstæði og frelsi en það sem væri að gerast í heiminum væri ekki got fyrir Evrópu, Ísland eða Bandaríkin.

Ræða hennar kom daginn eftir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, gerði Úkraínuforseta fyrirsát í Hvíta húsinu. Þórdís sagði Bandaríkin stefna hratt í ranga átt og núverandi stjórnvöld þar væru ekki málsvarar raunverulegt frelsis. Orð hennar eru athygliverð í ljósi þess að í gegnum tíðina hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó verið helsti talsmaður íslenska stjórnmálaflokka í samvinnu við Bandaríkin í viðskiptum og varnamálum.

„Þetta voru stór orð Þórdísar. Ég lít svo á að við þurfum fyrst og fremst að huga að hagsmunum Íslands. Við erum í EES-samstarfi og eigum að vinna með EES-þjóðunum að viðskiptahagsmunum. Á sama tíma verðum við að athuga að við erum með varnarsamning við Bandaríkin og höfum mikla viðskiptahagsmuni þar. En það er á hreinu að þetta eru mjög sérstakir og hvikulir tímar í heimsmálunum,“ sagði Jens Garðar aðspurður um heimsmálin.

Ekki efni á að setja góða virkjanakosti endalaust í bið


Á Alþingi er Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu síðan vorið 2013. Þing kom saman í febrúar í kjölfar kosninganna í nóvember en almennt má segja að stærri stefnumál nýrrar ríkisstjórnar eru boðuð á haustþingi, meðal annars samgönguáætlun.

„Á þingmálaskrá þessarar miklu verkstjórnar eru aðallega mál sem voru tilbúin til afgreiðslu frá fyrri ríkisstjórn. Þrátt fyrir það verður örugglega tekist á um ýmislegt í þinginu í vor. Síðasta umræða fyrir kjördæmaviku var um hvaða virkjanir ætti að fara í vernd og hverjar í við. Ráðherra orkumála lagði til að helmingur virkjunarkostanna færi í bið en hinn helmingurinn í vernd. Þessu þarf þingið að snúa við, að fá virkjanakosti sem eiga að fara í vernd í nýtingu eða í versta falli nýtingu. Við Íslendingar höfum ekki efni á að setja endalaust góða virkjanakosti í virkjanaflokk.“

Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn/Birgir Ísleifur Gunnarsson