Jens Garðar: Skráningin auðveldar íslenskum fjárfestum viðskipti
Aðstoðarforstjóri fiskeldisfélagsins Kaldvíkur segir skráningu þess á íslenska hlutabréfamarkaðinn auðvelda íslenskum fjárfestum viðskipti í félaginu. Þeir hafi áhuga enda sé vandað til í starfsemi félagsins.„Þegar fiskeldið var að stíga sín fyrstu skref var eðlilegt að skrá það í norsku Kauphöllina, þar sem er mikil hefð fyrir fiskeldisfélögum.
Núna fannst okkur rökrétt skref að skrá okkur í íslensku Kauphöllina. Það gerir íslenskum fjárfestum og almenningi, auðveldara að kaupa í félaginu,“ segir Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Kaldvíkur.
Félagið var tekið inn í á vaxtarmarkað Kauphallarinnar, sem ætlaður er litlum og meðalstórum fyrirtækjum, við lokuðum markaðarins í gær. Kauphallarbjöllunni var hringt á bryggjunni við Randulfssjóhús á Eskifirði en félagið er skráð þar til heimilis.
Fyrr um daginn var haldinn markaðsdagur þar sem kynnt var til sögunnar nýtt nafn, Kaldvík. Innan einingarinnar eru fiskeldisfélögin Ice Fish Farm/Fiskeldi Austfjarða, Laxar Fiskeldi, fiskvinnsla Búlandstinds á Djúpavogi auk seiðaeldisstöðva við Kópasker og Þorlákshöfn. „Þetta er búinn að vera frábær dagur þar sem við kynntum þá vinnu sem við höfum verið í með starfsfólki okkar undanfarið ár.“
Viðskipti með bréf í félaginu hófust í morgun. Verðmæti þess hefur hækkað en viðskiptin eru fá enda ekki um hlutafjáraukningu að ræða. „Þess vegna eru ekki mörg hlutabréf í umferð. Með skráningunni erum við að undirbyggja jarðveginn ef við sækjum hlutafé í framtíðinni til áframhaldandi vaxtar. Þá er auðveldara fyrir íslenska fjárfesta að koma inn í félagið.“
Kaldvík svarar umræðunni með vandaðri vinnu
Rúmur áratugur er síðan fiskeldi fór aftur af stað við Austfirði. Kaldvík er eina eldisfyrirtækið á Austfjörðum með eldi á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Berufirði auk leyfis til að ala ófrjóan lax á Stöðvarfirði. Þannig hefur félagið leyfi til að ala allt að 43.800 tonn.
Félagið hefur einnig sótt um leyfi til að ala allt að 10 þúsund tonn á Seyðisfirði, þar af 6.500 tonn af frjóum laxi. Þau áform hafa hins vegar mætt andstöðu og síðustu misseri hefur gagnrýni á fiskeldi hérlendis aukist töluvert. Á föstudag verður málþing á Vopnafirði á vegum Six Rivers þar sem fjallað verður um aðgerðir til verndar villta Atlantshafslaxins, en áhyggjum hefur verið lýst af laxar sem sleppa úr eldi grafi undan stofninum.
„Umræðan er skökk þessa stundina, meðal annars út af frumvarpi um lagareldi sem er fyrir Alþingi. Við þurfum að koma sterkar inn í umræðuna en ég held að við gerum það með góðri starfsemi. Umræðan má ekki byggjast á tilfinningum og upphrópunum, heldur vísindalegum rökum og yfirvegun. Starfsemi okkar er ekki eins og henni er lýst suður í Reykjavík. Þeir sem heimsækja okkur sjá að hér er ekki kastað til höndunum. Við höfum aldrei misst lax,“ segir Jens Garðar.
Um næstu skref Kaldvíkur bendir Jens Garðar á að félagi standi nú í miklum fjárfestingum til að efla seiðaeldisstöðvarnar. „Við stefnum á að framleiða stærri seiði. Meðalvigtin nú er um 350 grömm en við viljum ná henni upp í 500-600 grömm.“