Jónína Rós: Byrjað á vitlausum enda
Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, styður ekki óbreyttar tillögur um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þar hafi verið byrjað á vitlausum enda.
„Í stað þess að fara í stefnumótandi vinnu í heilbrigðismálum á landsbyggðinni með öllum hagsmunaaðilum er send niður kerfið tilkynning um hvað skuli gera,“ segir Jónína í samtali við Agl.is.
„Mér finnst að það þurfi að fara í þessa vinnu og búa til aðgerðaáætlun til einhverra ára um það hvernig megi ná fram hagræðingu og sparnaði. Mér finnst afar brýnt að dæmið sé sett upp allt til loka - samfélagsleg áhrif og atvinnuástand sé skoðað og aldrei komi til greina að leggja niður stóran hluta kvennastarfa í litlu samfélagi.“
Þær tillögur sem settar hafa verið fram, um fjórðungsniðurskurð á framlögum til Heilbrigðisstofunar Austurlands, segist Jónína ekki geta stutt.
„Ég get því ekki stutt þessar tillögur óbreyttar - en vona að allir aðilar geti fundið saman leið til að hagræða og spara því það verðum við að gera - en þar verður það sama að ganga yfir allt landið - íslensk þjóð þarf á öllu öðru að halda en sundrandi skilaboðum.“