Skip to main content

Jón Björn nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. mar 2025 16:03Uppfært 24. mar 2025 16:04

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, var á fimmtudag kjörinn nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann var áður varaformaður Sambandsins.


Jón Björn tekur við af Heiðu Björg Hilmarsdóttur, sem er nýtekin við sem borgarstjóri í Reykjavík. Í kjölfar þess ákvað hún að hætta sem formaður Sambandsins.

Jón Björn hefur verið varaformaður þess frá árinu 2022. Kjörið var á stjórnarfundi Sambandsins sem haldinn var í tengslum við landþing þess á fimmtudag.

Jón Björn hefur verið bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð frá árinu 2010. Flokkurinn hefur allan þann tíma verið í meirihluta og Jón Björn þá forseti bæjarstjórnar, utan áranna 2020-23 þar sem hann var bæjarstjóri.

Hökt í samstarfinu í lokin


Í lok landsþingsins færði Jón Björn Heiðu þakkir fyrir störf hennar í þágu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði stjórnina hafa tekist á við mörg stór verkefni þar sem reynt hefði á samstarfið en oftast náðst sameiginleg niðurstaða. Hann sagði að heilt yfir hefði góð samvinna og samstarf ríkt í stjórn Sambandsins, þrátt fyrir hökt síðustu vikur en það væri nú að baki.

Með höktinu vísar hann væntanlega til deilna innan stjórnarinnar í kjaraviðræðum við kennara. Á fundi þess 21. febrúar síðastliðinn hafnaði stjórnin sáttatillögu ríkissáttasemjara. Í bókun fundarins segir að strax á vinnslustigi hafi stjórnin komið því á framfæri að henni hugnaðist ekki tillagan. Af fundargerðum Sambandsins er ekki annað að sjá en þeir stjórnarmenn sem mættu hafi verið sammála.

Jón Björn stýrði þeim fundi í fjarveru Heiðu Bjargar, sem boðaði forföll en myndun nýs meirihluta í Reykjavík var þá á lokametrunum. Daginn eftir lýsti hún því opinberlega yfir að hún teldi að samþykkja hefði átt tillögun og síðar að ekki væri útilokað að Reykjavíkurborg semdi sér.

Mbl.is greindi frá því í kjölfarið að stjórnarmenn hefðu verið ósáttir við þetta framferði Heiðu. Þá hafa deilur um tré við flugvöllinn í Reykjavík einnig skapað deilur milli Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga í dreifbýli.