Jón Björn sækist eftir að vera oddviti áfram

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hefur gefið það út að hann sækist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins áfram í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóni Birni sem leitt hefur listann frá árinu 2010. Hann var forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs þar til hann varð bæjarstjóri haustið 2020.

„Kjörtímabilið sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur verið viðburðarríkt fyrir Fjarðabyggð á margan hátt, bæði hefur heimsfaraldurinn haft ýmis áhrif en um leið hefur verið staðinn vörður um hag íbúanna og uppbygging verið á mörgum sviðum í okkar góða sveitarfélagi.

Það hafa verið forréttindi að fá að starfa að sveitarstjórnarmálum í jafn öflugu sveitarfélagi og Fjarðabyggð er og fá að koma að mörgum verkefnum og uppbyggingu bæði í atvinnulífinu sem í þjónustu sveitarfélagsins á þessum árum. Ég er þakklátur því trausti sem mér hefur verið sýnt á vettvangi sveitarstjórnarmála enda eiga þau stóran part í mér eftir þennan tíma á þeim vettvangi.

Nú eru á sjóndeildarhringnum mjög spennandi verkefni í enn frekari uppbyggingu á grænum fjárfestingum sem við þurfum að grípa og koma til framkvæmda. Ég vill gjarna fá að leggja mitt að mörkum til að svo megi verða til að renna enn frekari stoðum undir atvinnulíf Fjarðabyggðar sem er svo lánsamt að hafa öflugan sjávarútveg, álframleiðslu, fiskeldi, ýmsan iðnað, landbúnað menningu og opinbera þjónustu sem styrkleika okkar. Með öflugu atvinnulífi gefst okkur tækifæri til að bjóða áfram upp á góða þjónustu íbúum Fjarðabyggðar öllum til heilla.

Við munum einnig sækja fram áfram. Á undanförnum árum hafa innviðir sveitarfélagsins verið byggðir enn frekar upp, og þar hefur verið horft til þess að Fjarðabyggð sé fjölskylduvænt samfélag. Við munum halda þeirri vinnu áfram og komum Fjarðabyggð, með sínu öfluga atvinnulífi og sterku innviðum, enn frekar á kortið sem góðum búsetukost eins og við þekkjum sem þar búum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.