Jón Björn snýr aftur í pólitíkina í Fjarðabyggð
Fyrrum bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jón Björn Hákonarson, hefur snúið aftur í sveitarstjórnarpólitíkina eftir að hafa sagt starfi sínu sem bæjarstjóri lausu snemma síðasta vetur. Hann kom til starfa á ný sem almennur bæjarfulltrúi í september og var kosinn nýr forseti bæjarstjórnar fyrr í vikunni.
Jón Björn lét af störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar snemma í febrúar síðasta vetur en þá hafði komist í hámæli að sumarbústaðir í eigu hans og fjölskyldu voru óskráðir og engin fasteignagjöld af þeim greidd. Hann sagði sjálfur á þeim tíma að gagnrýni þess vegna væri ekki ástæða þess að hann stigi tímabundið til hliðar heldur frekar að starf bæjarstjóra væri farið að snúast of mikið um hann sjálfan en ekki þau málefni sem skipti íbúana máli. Samkomulag náðist fljótlega í kjölfarið við sveitarfélagið að greiða tilskilin gjöld fyrir sumarhúsalandið.
Aðspurður segir Jón Björn síðan að hvíldin hafi gert honum gott en honum beri skylda til að snúa til baka og sinna þeim verkefnum sem honum hafi verið treyst fyrir við síðustu kosningar.
„Ég kom úr leyfi þann 1. september síðastliðinn í bæjarstjórn og svo var ég að taka við embætti forseta bæjarstjórnar úr höndum Birgir Jónssonar um daginn. Ég var forseti bæjarstjórnar í ein tólf ár áður þannig að ég er að taka við gamalkunnu embætti þar.“
Jón Björn segir hvíldina frá því í febrúar og fram til september hafi nægt honum til að ná áttum, endurnærast og geta komið sterkur á ný í sveitarstjórnarmálin.
„Þegar ég ákvað að segja af starfi bæjarstjóra og tilkynnti að ég ætlaði að taka mér leyfi í bæjarstjórn svona bara til að kasta mæðinni, taka mér frí og góða hvíld frá þessu öllu. En með tilliti til að maður var kjörinn í embætti og sérstaklega þegar fríinu var að ljúka þá ákvað ég að snúa til baka og gegna þeim skyldum sem ég var kjörinn til. Þetta er búin að vera fín hvíld frá þessum hlutum og ég bara geng inn í það að halda áfram sem kjörinn fulltrúi.“
Engar aðrar breytingar urðu á bæjarstjórn Fjarðabyggðar en að Jón Björn kæmi inn fyrir Birgi Jónsson. Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir verður áfram fyrsti varaforseti og Ragnar Sigurðsson annar varaforseti.