Jón og Anna algengust á Austurlandi
Algengasta eiginnafn kvenna á Austurlandi er Anna á meðan algengasta eiginnafn karla er Jón. Alls bera 142 konur Önnu nafnið á meðan að karlar sem heita Jón eru 153 talsins. Þetta jafngildir því að 2,5 prósent allra íbúa á Austurlandi heiti Jón og Anna.
Þetta er meðal þess sem má lesa á tölfræðivef Þjóðskrár fyrir sveitarfélög, en um nýlega viðbót við vef Þjóðskrár er að ræða sem til stendur að efla enn frekar á næstunni.
Jón er algengasta nafn karla í öllum sveitarfélögunum á Austurlandi nema í Fljótsdalshrepp þar sem Gunnar skákar Jóni naumlega. Þrír karlar að nafni Gunnar eru búsettir í hreppnum en tveir heita Jón. Sama er uppi á teningunum varðandi Önnu nafnið, það er algengast í Fjarðabyggð, Múlaþingi og Vopnafjarðarhreppi en í Fljótsdal hefur nafnið Helga vinninginn. Þrjár Helgur eru þar búsettar en bara tvær Önnur.
Önnur algengustu eiginnöfn kvenna á Austurlandi eru Guðrún, Jóhanna og Sigríður en líklegast er að rekast á karlmenn að nafni Sigurður, Guðmundur eða Stefán, að Jóni frátöldum.
Þá má sjá aldursdreifingu íbúa sveitarfélaganna inni á vefnum. Þar sést að elsti íbúi Austurlands er búsettur í Fjarðabyggð og er 101 árs. Meðalaldur íbúa er lægstur í Fjarðabyggð, 38 ár, en hæstur í Fljótsdalshreppi, 47,4 ár.