Skip to main content

Jónína sækist eftir að verða ritari Framsóknarflokksins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. sep 2025 08:37Uppfært 27. sep 2025 08:48

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Múlaþingi og varaþingmaður í Norðausturkjördæmi, tilkynnti í gærkvöldi framboð sitt til ritara Framsóknarflokksins. Hún segir þörf á að færa flokkinn nær fólkinu á ný.


Fráfarandi ritari er Ásmundur Einar Daðason sem féll af þingi í nóvember. Hann tilkynnti fyrr í gær að hann væri hættur í stjórnmálum og þar með væri ritarastaðan laus.

Flokknum vegnaði illa í síðustu þingkosningum og fylgi hans heldur áfram að dala, samkvæmt könnunum. Jónína gerir þetta að umtalsefni í tilkynningu sinni þar sem hún segir flokkinn hafa „misst tengsl við kjósendur sem áður voru sterk.“ Því þurfi að efla innviði hans og „færa nær fólkinu á ný.“

Sveitarstjórnarkosningar verða 16. maí á næsta ári. Jónína segir að ritari flokksins verði að hafa tíma og tækifæri til að sinna grasrót flokksins, í stað þess að vera í mörgum öðrum hlutverkum. Hún kveðst vilja styðja við væntanlega framboðslista og miðla reynslu milli svæða þannig flokkurinn fari vel undirbúinn inn í kosningarnar. Öflugt framboð í sveitarstjórnum sé grunnurinn að sterkri framtíð Framsóknar.

„Framsóknarflokkurinn er leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Með sterkri grasrót, samstilltu innra starfi og traustu samstarfi við samfélagið getum við endurheimt traust og aukið áhrif okkar bæði á landsvísu og í heimabyggð. Ég er reiðubúin að leggja mig alla fram til að þessi sýn verði að veruleika,“ segir hún.

Kosið verður á miðstjórnarfundi flokksins þann 18. október. Ritarinn er einn þriggja fulltrúa í framkvæmdastjórn flokksins. Hinir tveir eru formaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson og varaformaðurinn, Lilja Alfreðsdóttir.