Skip to main content

Jónína stefnir á fyrsta sætið hjá Framsókn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. feb 2022 18:19Uppfært 08. feb 2022 18:20

Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Tækniminjasafni Austurlands, hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Múlaþingi fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor.


Jónína hefur starfað lengi í félagsmálum, er meðal annars varafulltrúi í sveitarstjórn í dag, varaformaður umhverfis- og framkvæmdaráðs og ritari stjórnar HEF veitna. Hún hefur tvisvar verið á lista í Alþingiskosningum.

Í framboðstilkynningu Jónínu segir að rétt sé að líta um öxl og segja að sameining sveitarfélaga í Múlaþing hafi gengið vonum framar þótt henni sé ekki lokið og ljúki kannski aldrei að fullu. Náttúruhamfarir og heimsfaraldur hafi sett strik í reikninginn fyrstu mánuðina.

„Það er ljóst að nýrrar sveitarstjórnar bíða ærin verkefni á flestum sviðum því hér stöndum við frammi fyrir því lúxusvandamáli að þróa samfélag okkar í takt við fjölgun íbúa. Þetta verkefni hefur ýmsar birtingarmyndir og það er mikilvægt að sveitarfélagið bjóði upp á nægt byggingarland, byggi nýtt skólahúsnæði og sinni viðhaldi á því eldra auk þess að vinna þétt með atvinnulífinu að okkar sameiginlegu verkefnum.

Það bíða einnig gríðarlegar framkvæmdir í fráveitu- og húshitunarmálum auk þess sem ný sveitarstjórn þarf að halda ríkisvaldinu við efnið varðandi vegaframkvæmdir enda er það enn grunnforsenda sameiningarinnar.

Ég skal alveg játa það að ég ígrundaði þetta vel, skoðað málið frá mörgum hliðum og velti upp kostum og göllum við þessa ákvörðun enda er óhætt að segja að það er ekki alltaf dans á rósum að starfa á sveitarstjórnarstigi. En það er áskorun sem ég er tilbúin að takast á við í okkar góða samfélagi hér í Múlaþingi. Við erum nýsameinað sveitarfélag sem hefur nú þegar tekist á við flóknar áskoranir. Við höfum staðið okkur vel og við ætlum að gera það áfram.“