Kæru um ógildingu byggingarleyfis frystihúss Loðnuvinnslunnar hafnað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. mar 2022 09:06 • Uppfært 22. mar 2022 16:06
Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kæru um að leyfi til viðbyggingar og breytinga á frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði verði ógilt. Nágrannar töldu of mikinn hávaða berast frá starfseminni að íbúðarhúsi þeirra.
Loðnuvinnslan sótti um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar, 150 og 650 fermetra við frystihúsið auk þess að bæta við eimsvala. Málið var grenndarkynnt síðasta sumar.
Húseigendur í rúmlega 20 metra fjarlægð frá gerðu athugasemdir við framkvæmdirnar og töldu hávaða frá tækjabúnaðinum hafa áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi húss síns. Sýndu þeir fram á að jafngildishljóðstig væri 58-62 desíbel en hefði farið upp í 74 desíbel. Í reglugerð segir að hávaði frá atvinnustarfsemi við húsveggi megi að hámarki vera 50 db yfir daginn en 40 að nóttu.
Íbúarnir sögðu að eimsvalarnir væru stöðugt í gangi og ekkert í gögnum Loðnuvinnslunnar sýndi fram á að með framkvæmdunum minnkaði núverandi hávaði. Þá hefði bæjarráð Fjarðabyggðar vanrækt rannsóknarskyldu sína við útgáfu leyfisins. Meðal annars hefði aðeins verið horft á tölur framleiðanda búnaðarins um hávaða né hefði nokkuð verið hugsað út í læti frá öðrum hljóðgjöfum. Samkvæmt þeim tölur á hávaðinn að fara niður í 49,5 db, rétt undir mörkin.
Fjarðabyggð svaraði því til að leyfið hefði verið gefið út með skilyrðum um að hávaði yrði mældur að loknum framkvæmdum og gripið til aðgerða ef hann yrði yfir mörkum. Þá taldi sveitarfélagið að útgefandi starfsleyfis ætti að setja skilyrði um hávaðamengun en ekki sveitarfélagið. Rannsókn hefði verið fullnægjandi, auk þess sem óhugsandi væri að mæla hávaðann áður en búnaðurinn yrði kominn í gang.
Af hálfu Loðnuvinnslunnar var því haldið fram að nýi eimsvalinn væri það afkastamikill að eimsvala hússins þyrfti ekki lengur að keyra á fullum afköstum. Þá hafi verið brugðist við athugsemdum húseiganda með að setja hljóðdeyfa á eldri eimsvala. Fyrirtækið vísaði einnig til þess að nýr búnaður, svo sem pönnur úr plasti í stað áls, drægi verulega úr hávaða frá annarri starfsemi.
Í úrskurði nefndarinnar er vísað til reglugerðar um hávaða um að hljóðstig á kyrrlátu svæði eigi ekki að fara yfir 50 db., en mörk fyrir atvinnustarf eru 55 db. Virðist nefndin leggja trúnað á gögn um að hávaði frá eimsvölunum fari yfir 50 db. og tekur undir ráðstafanir um að mæla hávaðann eftir framkvæmdir sé af hinu góða. Þá sé ekki hægt að mæla hann fyrirfram. Íbúunum er vísað á að þeir geti leitað til heilbrigðiseftirlits náist ekki tilskilinn árangur.
Því var kröfu um ógildinu byggingarleyfisins hafnað. Síðast haust var kröfu um stöðvun framkvæmda hafnað.