Kajakræðarar að verða komnir út úr fjórðungnum: Lentu í sjávarháska í Austfjarðaþokunni
Suður-afrísku kajakræðararnir Riaan Manser og Dan Skinstad, sem róið hafa meðfram austurströndinni seinasta hálfa mánuðinn, eru að verða komnir út úr fjórðungnum og stefna hraðbyri til Hornafjarðar. Litlu munaði að illa færi einn daginn eftir að félagarnir réru frá Seyðisfirði. Þrátt fyrir erfiða sjóferð hafi verið ótrúlegt að horfa á náttúruna.
„Þykk þoka sveipaðist utan um okkur og skyggnið varð nánast ekkert sem varð til þess að við urðum að bíða með að róa til lands. Við biðum í 45 mínútur úti á sjónum þar til þokunni létti,“ skrifar Riaan í ferðadagbók sína um daginn sem félagarnir flugu réru frá Seyðisfirði til Vöðlavíkur.
„GPS tækið mitt sagði mér að skammt væri í ströndina en við heyrðum bara þegar öldurnar brotnuðu. Við vildum ekki stefna til lands nema við sæjum hvert við færum. Við létum því vaða þegar létti til en róðurinn varð þyngri en við væntum. Dan datt úr kajaknum og ég líka stuttu seinna.
Ég missti takið á honum, sem er það versta sem getur gerst. Dan hélt hins vegar dauðahaldi í bátinn því hann vildi ekki lenda í því sama og fyrir nokkrum dögum þegar hann varð að sleppa eftir að hafa fallið fyrir borð og barst nokkur hundruð metra burt frá honum.“
Riaan segir að blessunarlega hafi verði stutt til lands. „Við börðumst í gegnum öldurnar og komumst á þurrt land. Kajakinn skilaði sér líka en harðar öldurnar höfðu hvolft dýrmætum búnaðinum úr honum og farið harkalega með hann.“
Þótt Ægir sé grimmur segir Riaan landsýnina stórkostlega. „Há fjöll með snjó efst skýla litlum þorpum í botni langra og þröngra fjarða, og árnar renna efst úr fjöllunum og falla í fossum niður í dalinn. Við höfum notið þeirra forréttinda að sjá Ísafold í sínum frosthvíta kjól og klæða sig yfir í sumarskrúðann, grænan og brúnan.“