Kaldvík annað austfirska félagið til að verða skráð í íslensku kauphöllina
Fiskeldisfélagið Kaldvík varð í gær annað fyrirtækið með heimilisfesti á Austurlandi til að vera skráð á íslenskan hlutabréfamarkað. Forseti íslensku kauphallarinnar segir skráninguna skapa tækifæri fyrir fyrirtækið til að taka betur þátt í upplýstri umræðu.Kaldvík var formlega tekin inn í íslensku Kauphöllina við lokun markaða í gær. Guðmundur Gíslason, forstjóri og stofnandi félagsins, hringdi þá kauphallarbjöllunni á bryggjunni við Randulfssjóhús á Eskifirði. Fyrirtækið er skráð þar til heimilis en í gær var haldinn markaðsdagur þar sem var yfir starfsemi félagsins og siglt út að eldisstöðinni Gripalda í skoðunarferð.
Um morguninn var Kaldvíkurnafnið kynnt, en það nær yfir sameinað fyrirtæki fiskeldisfyrirtækjanna Ice Fresh Farm eða Fiskeldis Austfjarða, Laxa Fiskeldis og fiskvinnslu Búlandstinds auk tveggja seiðaeldisstöðva í Þorlákshöfn og við Kópasker. Fleiri breytingar eru í augsýn því í haust lætur Guðmundur af störfum forstjóra og færir sig alfarið í sölumál en Roy Tore Rikardsen verður forstjóri.
Kaldvík er skráð á „First growth market“, sem er ákveðinn markaður ætlaður fyrir fyrirtækjum í vexti, eða smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Um hann gildir rýmra regluverk heldur en aðalmarkað Kauphallarinnar.
„Það eru forréttindi að fá að fagna þessum áfanga með ykkur. Markaðsdagurinn hefur sýnt mikilvægi félagsins fyrir efnahagslíf og vaxtartækifæri Austurlands,“ sagði Magnús Harðarson, forseti Kauphallarinnar við athöfnina í gær.
Kauphöllin endurspegli fjölbreytni íslensks atvinnulífs
Kaldvík er annað fyrirtækið með heimilisfesti á Austurlandi til að vera skráð á íslenskan hlutabréfamarkað, en nánast þrjú ár eru upp á dag síðan Síldarvinnslan í Neskaupstað var skráð inn.
„Kauphöllinn styður við vöxt á ólíkum svæðum í fjölbreyttum atvinnugreinum. Við viljum að markaðurinn endurspegli samsetningu íslensks efnahagslífs og tækifæri þess til vaxtar. Þess vegna er viðeigandi að Kaldvík hafi skráð sig á vaxtarmarkaðinn.“
En Magnús ræddi líka hvernig Kaldvík geti nýtt sér til góðs upplýsingaskylduna sem lögð er á félög á markaði. „Laxeldi er umdeildur iðnaður hérlendis. Skráningin styður við það mikilvæga hlutverk að upplýsa, fræða og skapa skilning á atvinnugreininni. Skráningin getur verið vettvangur fyrir Kaldvík til að sýna enn betur skuldbindingar sínar varðandi gæði, sjálfbærni og náttúrunni.
Þá færir skráningin Kaldvík nær mikilvægum hópi fjárfesta, allt frá stofnanafjárfestum til almennings og skapar ný tækifæri til fjármögnunar. Um leið aukast samskiptin við samfélagið.“
Sjöunda félagið til að vera líka skráð á Íslandi
Kaldvík, undir merki móðurfélagsins Ice Fish Farm, hefur verið skráð í Kauphöllina í Osló frá 2020. Það er þar með sjöunda félagið sem skráð er á markað bæði á Íslandi og annars staðar. „Við höfum mörg dæmi um hversu verðmæt skráningin er fyrir félög sem skráð annars staðar en standa í rekstri hérlendis. Við erum ánægð með að íslenski markaðurinn veiti slíkt aukið virði.“
„Skráning á markað er mikilsverður áfangi fyrir Kaldvík. Íslenskir fjárfestar hafa sýnt félaginu mikinn áhuga. Skráningin hvetur okkur til dáða í rekstrinum með að gera fleirum fjárfestum kleift að taka þátt í vexti félagsins og verðmætasköpun,“ er haft eftir Guðmundi í tilkynningu Kauphallarinnar í morgun.
Ekki hafa verið mikil viðskipti með bréf í félaginu í morgun, en virði þess á íslenska markaðinum hefur hins vegar hækkað um 7% á þeim stutta tíma.